131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Sala Símans og grunnnetið.

[10:55]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Við erum ekki að finna upp hjólið í þessu sambandi. Alls staðar þar sem símafyrirtæki hafa verið seld hefur grunnnet fylgt með, það hefur hvergi verið aðskilið. Það hefur hvorki verið talið skynsamlegt né eðlilegt og ekki tryggja hag neytenda. Þetta hefur legið fyrir allt frá 2001.

Fulltrúar stjórnarandstöðunnar koma nú upp og mæla gegn þessu og hver eru aðalrökin? Rökin eru skoðanakannanir. Er það þannig t.d. með Samfylkinguna að hún móti yfirleitt stefnu sína í gegnum skoðanakannanir? Ég heyri ekki betur en stefna Samfylkingarinnar breytist með vindinum fram og til baka. Ef það kæmi einhver ný skoðanakönnun um þetta mundi Samfylkingin taka aðra stefnu? Einhvern veginn finnst mér að það liggi í loftinu. (Gripið fram í: Látið ekki Sjálfstæðisflokkinn plaga ykkur.) Það liggur alveg ljóst fyrir, hv. þingmaður, að bæði ríkisstjórnin og flokkarnir sem standa að henni hafa mótað sér skýra stefnu í þessum málum og við höfum staðið á þeirri stefnu. Auðvitað er umræða um þessi mál í þjóðfélaginu. Það er að sjálfsögðu ósk fólks út um allt land að bæta þjónustuna en leiðin til að styrkja grunnnetið og bæta þjónustuna er einmitt með því að selja. Þetta er nákvæmlega sama umræðan sem sprettur upp á Alþingi og þegar til stóð að einkavæða ríkisbankana. Þá komu sömu úrtöluraddirnar. Ef þær hefðu ráðið, úrtöluraddirnar sem tala svo mikið fyrir skoðanakönnunum, ætli hefði þá verið jafnmikill kraftur í íslensku þjóðfélagi og íslensku fjármálalífi og er í dag? Nei, það hefði ekki verið.