131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Umræðuefni í athugasemdum um störf þingsins.

[11:10]

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Eins og ég las upp úr 2. mgr. 55. gr. þingskapa Alþingis eru talin upp þrjú atriði þar sem hægt er að biðja um umræðu undir liðnum um fundarstjórn forseta. Það er stutt athugasemd um atkvæðagreiðslu, um fundarstjórn forseta og til þess að bera af sér sakir. Þetta er talið upp í einni setningu.

Ég tel og það er mín skoðun að þessi atriði gangi fram fyrir og rjúfi aðra umræðu í þinginu. Frú forseti hefur hins vegar aðra skoðun á því og ég að sjálfsögðu hlíti henni.

Varðandi það að ég hafi tekið þátt í umræðunni og síðan rætt um fundarstjórn forseta — ég veit ekki betur en að hv. þm. Jón Bjarnason hafi einmitt verið að gagnrýna mig fyrir að ég þyrði ekki að fara í umræðuna. Hann sagði að ég vildi banna svona umræðu af því að ég vildi ekki umræðuna. En ég var einmitt að sýna að ég vildi umræðuna. Ég er ekkert hræddur við hana. Ég fór í hana en mér finnst þetta mjög vafasöm þróun. Þetta er mjög vafasöm þróun með störf þingsins því að við eigum að ræða um störf þingsins, það að nefndir geri ekki eitthvað ákveðið, það að eitthvað sé að gerast innan þingsins. Við eigum ekki að tala efnislega um eitthvert ákveðið mál, ekki umræður utan dagskrár. Til þess höfum við ákveðna leið í þingsköpum. (Gripið fram í.)

Menn geta rætt um að það taki langan tíma, það er sannarlega umræða um störf þingsins. Menn geta rætt um að það taki langan tíma og beðið forseta um að taka inn fleiri utandagskrárumræður, það eru störf þingsins, en ekki að taka einstakar umræður efnislega undir þessum lið. Það er þetta sem ég á við.

Við erum líka með þrjár umræður fyrir hvert mál. Þess vegna er óþarfi að vera að ræða efnislega einstök mál undir liðnum um störf þingsins. Við höfum til þess leiðir í þingsköpum.

Ef umræðan dregst hins vegar lengi og málin bíða mjög lengi getur maður farið yfir í störf þingsins og talað um að þetta og þetta mál hafi beðið of lengi. Það er rökfræðilega um störf þingsins.

Hér hafa meira að segja komið fram fyrirspurnir til ráðherra undir liðnum um störf þingsins. Það hefur ekkert með störf þingsins að gera nema þær fyrirspurnir hafi hrannast upp og að þingið hafi ekki valdið því að svara fyrirspurnum þokkalega. Þá getur maður rætt það undir liðnum um störf þingsins að fyrirspurnir þurfi að bíða lengi. Ég veit ekki betur en að menn séu að gera hér stórátak í því að svara einmitt fyrirspurnum með því að byrja klukkan 12 á miðvikudögum.

Þetta er um störf þingsins og ég vil ekki að menn séu að blanda öðrum liðum saman við. Við höfum þingsköp sem eru lög frá Alþingi og ef við viljum breyta þessu skulum við breyta þingsköpunum.