131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Norræna ráðherranefndin 2004.

516. mál
[11:39]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það þurfi hvorki tölfræði né eitthvert yfirlit. Það ætti einmitt að vera forgangsverkefni til að tryggja lýðræðið í landinu að farið sé yfir það og það liggi uppi á borðinu hverjir styrkja stjórnmálaöflin. Það kom upp í sakamáli, vil ég leyfa mér að segja, t.d. í olíuhneykslinu, að þegar menn keyptu bensín hjá Esso voru þeir að dæla krónum í kosningasjóð Framsóknarflokksins. Sömuleiðis þegar viðskiptavinir — jafnvel úr Frjálslynda flokknum — keyptu olíu hjá Shell þá voru þeir að dæla nokkrum krónum í kosningasjóð Sjálfstæðisflokksins.

Ég hefði talið fróðlegt og nauðsynlegt að ráðherra sem fjallar um þessi mál upplýsti hver afstaða hennar er í þessu máli. Mun hún beita sér fyrir því að þetta mikilvæga og þarfa mál komi upp á yfirborðið og verði eitt af verkefnum nefndarinnar? Ég tel að það þurfi enga tölfræði eða eitthvert dúllerí heldur eigi þetta bara að vera öllum ljóst.