131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Norræna ráðherranefndin 2004.

516. mál
[11:41]

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég sé ástæðu til að óska hæstv. samstarfsráðherra Norðurlandanna til hamingju með góða skýrslu og þeim embættismönnum sem hafa unnið að þessari skýrslugerð en hún er mjög vönduð og yfirgripsmikil. Í henni kemur fram að við vorum í formennsku í norrænu ráðherranefndinni á síðasta ári og tel ég að þar hafi mjög vel til tekist. Við erum í formennsku á fimm ára fresti. Það er mikið verk að vera í formennsku og stýra öllu norræna samstarfinu þannig, sem formennskuríki. Að mínu mati tókst mjög vel til og ég vil gjarnan óska hæstv. samstarfsráðherra til hamingju með sinn hlut í því.

Yfirskriftin á formennskuári okkar var „Auðlindir Norðurlandanna, lýðræði, menning og náttúra“. Ég ætla aðallega að gera tvennt að umtalsefni, í fyrsta lagi lýðræðismálin og svo norrænt samstarf og breytingar á því vegna tilkomu Evrópusambandsins og áhrifa þess á norrænt samstarf.

Varðandi lýðræðismálin er það rétt sem kom fram í máli hæstv. ráðherra að mikill fókus var á lýðræðismálin og mikil áhersla á þau af okkar hálfu í formennsku okkar. Nefnd starfaði að því að skoða lýðræðismál og lýðræðisþróun á Norðurlöndunum undir forustu Kristínar Ástgeirsdóttur. Ég tel að vel hafi tekist til í þeirri vinnu og sú skýrsla sem kom frá lýðræðisnefndinni er mjög athyglisverð. Hún byggir að miklu leyti á úttektum Dana og Norðmanna. Ég tel að Norðurlöndin eigi að vinna á þeim nótum sem fram koma í þessari skýrslu og að það sé mjög mikilvægt að Norðurlöndin verði áfram í þeirri skoðun sem þau eru í núna, þ.e. hvernig hægt er að auka lýðræðið í breyttum heimi.

Það á sér stað mikil hnattvæðing sem er af hinu góða að mínu mati og hún hefur áhrif á lýðræðið. Líka koma nýir íbúar til Norðurlandanna frá fjarlægari löndum. Sumir þeirra einangrast og taka ekki þátt í samfélaginu. Það er mjög miður og við eigum að gera allt til þess að auka þátttöku þessara nýbúa. Jafnframt þarf að efla þátttöku ungs fólks í lýðræðinu, sem og kvenna. Það er skortur á bæði ungu fólki og konum í umræðunni um samfélagsmál í dag.

Varðandi áframhald á þessari vinnu tel ég mjög mikilvægt að Danir, sem núna taka við formennsku, haldi áfram að vinna að eflingu lýðræðis á Norðurlöndunum. Mér skilst að þeir muni gera það og að það komi fram í formennskuáætlun þeirra.

Evrópusambandið og þróun þess hefur haft mjög mikil áhrif á norrænt samstarf. Sumir töldu að norrænt samstarf mundi staðna með tilkomu Evrópusambandsins og þróunar þess en svo er aldeilis ekki, norrænt samstarf hefur gengið í endurnýjun lífdaga, má segja, vegna áhrifa frá Evrópusambandinu. Það er að sjálfsögðu meðal annars vegna þess að þrjú Norðurlandanna eru fullgildir meðlimir í Evrópusambandinu, Danmörk, Svíþjóð og Finnland. Einnig eru Ísland og Noregur meðlimir á hinu Evrópska efnahagssvæði og taka þar með inn í löggjöf sína mjög margar tilskipanir frá Evrópusambandinu. Sumir segja að við Íslendingar séum um 80% í Evrópusambandinu nú þegar og þá væntanlega Norðmenn líka. Það er erfitt að setja tölulegt gildi á það en a.m.k. hefur Evrópusambandið mjög mikil áhrif á Norðurlöndin.

Því liggur í hlutarins eðli og er mjög skynsamlegt að Norðurlöndin vinni saman til að hafa sterkari rödd á vettvangi Evrópusambandsins. Þar er norræna samstarfið algjörlega upplagt til að vera þessi samráðsvettvangur. Það er vettvangur sem við þekkjum, höfum unnið á í langan tíma og því blasir við að norræna samstarfið verður meira eða minna vettvangur fyrir samráð vegna þeirrar þróunar sem á sér stað í Evrópusambandinu og er okkur Íslendingum sem erum fyrir utan Evrópusambandið mjög í hag.

Við sjáum líka að ný ríki sem hafa komið inn í Evrópusambandið, eins og Eystrasaltsríkin, hafa fetað sig meira í átt að norrænu samstarfi og Norðurlöndin feta sig á móti í átt að samstarfi við Eystrasaltsríkin. Norrænt samstarf er því meira litað af samstarfi við hin nýju ríki í dag sem hefur meiri áhrif á Evrópusambandið en nokkurn tíma fyrr. Ég vil nefna sérstaklega að Eystrasaltsríkin eru í dag fullgildir meðlimir í Norræna fjárfestingarbankanum og verið er að skoða hvernig Eystrasaltsríkin geti komið meira að norrænu samstarfi, þ.e. á fleiri sviðum. Þar er mikill vandi á ferð því menn vilja bæði auka samstarfið við Eystrasaltsríkin en samt ekki missa þetta gamla góða norræna samstarf sem hefur verið. Það þarf að feta hinn gullna meðalveg í þessu svo að við töpum ekki hinu góða norræna samstarfi en gætum hagsmuna okkar með því að auka samstarfið, m.a. við Eystrasaltsríkin gagnvart því að hafa meiri áhrif innan Evrópusambandsins.

Það er alveg ljóst að norrænt samstarf verður fyrir meiri og meiri áhrifum frá Evrópusambandinu. Í mínum huga mun það einungis vaxa á næstunni. Evrópusambandið mun hafa meiri og meiri áhrif á ríkin á Norðurlöndunum og á samstarf þeirra sín í millum. Þetta var nokkuð rætt á flokksþingi Framsóknarflokksins sem haldið var um síðustu helgi og þar var meðal annars samþykkt ný ályktun varðandi Evrópumál. Ég verð að láta þá skoðun mína í ljós að ég er sammála þeim orðum sem komu fram bæði á flokksþinginu og í fjölmiðlum frá hæstv. forsætisráðherra, Halldóri Ásgrímssyni, formanni Framsóknarflokksins, að ályktunin hafi verið tímamót í flokki okkar. Við sem höfum fylgst með starfi flokksins í gegnum árin og vorum meðal annars viðstödd þegar við tókumst á í flokknum á flokksþingi um aðkomuna að EES sjáum og skynjum hversu mikil tímamót þetta eru. Það er allt annað andrúmsloft í Framsóknarflokknum gagnvart Evrópusambandinu en var og þó að við séum ekki tilbúin til að segja að við viljum ganga þar inn erum við tilbúin til að segja að við viljum skoða samningsmarkmið okkar og undirbúa aðild, samanber orðalagið „hugsanlegur undirbúningur aðildar“ sem varð ofan á á flokksþinginu okkar.

Hér er því um tímamót að ræða. Hins vegar kom í framhaldinu hæstv. utanríkisráðherra, Davíð Oddsson, fram á völlinn og hefur talað á allt öðrum nótum og túlkað ályktanir flokksþings Framsóknarflokksins beint ofan í túlkun formanns flokksins, Halldórs Ásgrímssonar, hæstv. forsætisráðherra. Hjá honum hefur komið fram að þetta séu engin tímamót í Evrópumálum, engin ný ákvörðun hafi verið tekin, hvorki í flokki né ríkisstjórn og ekkert nýtt hafi gerst svo framarlega sem hæstv. utanríkisráðherra sé sjálfur læs. Þetta hefur komið fram í fjölmiðlum.

Maður hefur fylgst með foringjum flokkanna eftir 15. september þegar stólaskiptin urðu. Það hefur gengið afskaplega vel, menn hafa verið að fóta sig í nýjum hlutverkum en eitthvað hefur nýr tónn skyndilega skapast þar sem fyrrverandi forsætisráðherra, hæstv. utanríkisráðherra, túlkar niðurstöður flokksþings Framsóknarflokksins algjörlega á skjön við hæstv. forsætisráðherra. Það þykir mér mjög merkilegt. Maður hlýtur að spyrja sig: Hvaða skilaboð eru þetta? Er verið að skammast yfir Evrópuályktuninni, að hún sé of jákvæð eða yfir ræðum hæstv. forsætisráðherra? Er verið að undirbúa eitthvert nýtt stjórnarsamstarf á milli Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna eða hvað er hér á ferðinni?

Maður er nokkuð hissa á þeim opinberu yfirlýsingum sem hafa komið núna og ég vil gjarnan tengja þær beint við hið norræna samstarf vegna þess að við sjáum að Evrópusambandið hefur mikil áhrif á það og það mun að mínu mati einungis aukast í framtíðinni. Þess vegna þurfum við, hin íslenska þjóð, að skoða betur en við höfum gert aðkomu okkar gagnvart Evrópusambandinu. Þar er engin niðurstaða fengin en a.m.k. ljóst að Framsóknarflokkurinn hefur tekið ákveðið skref í þá átt að vilja skoða aðild að Evrópusambandinu með opnari hætti en áður. Það væri ágætt ef hæstv. samstarfsráðherra Norðurlandanna vildi segja eitthvað um þessa þróun í Evrópusambandinu gagnvart norrænu samstarfi að lokum en skoðun mín er a.m.k. sú að tengsl norræns samstarfs við Evrópusambandið munu bara aukast. Þau munu ekki minnka, bara aukast, og okkur ber að taka mið af því.