131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Norræna ráðherranefndin 2004.

516. mál
[11:51]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var um margt ansi merkileg ræða, sérstaklega kaflinn um Evrópusamþykkt Framsóknarflokksins frá landsþingi flokksins um helgina og útlegging hv. þingmanns á orðum hæstv. utanríkisráðherra frá því í gær um að engin stefnubreyting hefði orðið á Evrópustefnu Framsóknarflokksins ef hann væri læs.

Ég tek undir með þeirri sem hér mælti að vissulega virtist vera um ákveðna stefnubreytingu að ræða í átt að aðild að Evrópusambandinu. Því vildi ég spyrja hv. þm. Siv Friðleifsdóttur hvort hún væri að segja að hæstv. utanríkisráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, viðurkenndi ekki stefnubreytinguna sem orðið hefði á Evrópusambandsaðild Framsóknarflokksins, enda hefur hæstv. utanríkisráðherra lýst því yfir að hann mundi aldrei nokkurn tímann styðja Evrópuaðild Íslands, ekki nema hann yrði galinn eins og hann sagði í frægu sjónvarpsviðtali fyrir tveimur árum.

Heldur hv. þingmaður því fram að hæstv. utanríkisráðherra mistúlki og afflytji Evrópustefnu Framsóknarflokksins með það að markmiði að slíta stjórnarsamstarfinu og að Sjálfstæðisflokkurinn gæti myndað ríkisstjórn með Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, eins og hún virtist vera að gefa til kynna? Þá má spyrja á móti: Er ekki að opnast valkostur fyrir hinn Evrópusinnaða Framsóknarflokk að leita eftir stjórnarsamstarfi við Samfylkinguna sem hefur þá stefnu að sækja eigi um aðild að Evrópusambandinu og fara síðan með samninginn fyrir þjóðaratkvæði?