131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Norræna ráðherranefndin 2004.

516. mál
[11:57]

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það blasi við þegar leiðtogar þeirra stjórnmálaflokka sem leiða ríkisstjórnina tala eins og þeir hafa gert síðustu daga hljóti menn að komast að því — að þeir tala ekki í takt. Hæstv. forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson talar um að Evrópusambandsályktunin frá flokksþinginu marki ákveðin tímamót og sé ákveðið skref, (Gripið fram í.) ekki mjög langt, það er rétt, ekki eins langt og Samfylkingin vill fara, alls ekki. Hæstv. utanríkisráðherra Davíð Oddsson talar hins vegar um að það séu engin tímamót svo fremi að hann sé læs.

Þegar forustumenn stjórnmálaflokkanna sem stjórna landinu tala svona spyr maður sig: Eru ekki einhver skilaboð í því? Ekki er þetta sagt í einhverjum hálfkæringi, það held ég ekki. Það hljóta að vera einhver skilaboð í því, og maður spyr sig: Hvaða skilaboð eru það? Það er mjög erfitt að túlka það og kannski er það ekki mitt hlutverk frekar en margra annarra að túlka þá opinberu umræðu sem hefur átt sér stað um sama málið með svona ólíkum hætti.

Ég sagði hins vegar áðan að maður spyrði sig: Eru þetta skilaboð um að hæstv. utanríkisráðherra hafi mislíkað þau orð sem hæstv. forsætisráðherra lét falla um ályktunina eða eru þetta skilaboð um einhvers konar annað stjórnarsamstarf? Er verið að gefa því undir fótinn? Ég veit það ekki. Mér finnst þetta a.m.k. mjög athyglisvert og þetta er mjög óvenjulegt vegna þess að þegar við sjáum hverjir eiga í hlut hlýtur yfirlýsingin frá hæstv. utanríkisráðherra í gær að þýða eitthvað.