131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Norræna ráðherranefndin 2004.

516. mál
[12:00]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég spyr: Hvaða skilaboð var verið að gefa úr pontu Alþingis af hálfu þingmanns Framsóknarflokksins og fyrrverandi ráðherra, Sivjar Friðleifsdóttur? (Gripið fram í.) Já, þetta er ræða, ég á eftir að segja ýmislegt um þetta því hér eru að gerast stórpólitísk tíðindi. Þessi ræða var ekki aðeins skýr vitnisburður um vaxandi spennu og átök innan ríkisstjórnarinnar milli Framsóknarflokksins annars vegar og Sjálfstæðisflokksins hins vegar, heldur spyr ég mig eins og hv. fyrri ræðumaður, Siv Friðleifsdóttir: Var hún að gefa skilaboð frá Framsóknarflokknum um ósk um stjórnarslit? Um nýjar alþingiskosningar og þá hugsanlega samstarf við Samfylkinguna? Aðrar eins ástarjátningar á sameiginlegri stefnu Samfylkingar og Framsóknar í Evrópumálum hef ég ekki heyrt í langan tíma. Andheitar og eldheitar ástarjátningar, og ég held að mörgum félagslega þenkjandi framsóknarmanni hljóti að hafa brugðið við þessar umræður (Gripið fram í: Nú?) á flokksþinginu sjálfu og núna í þingsal.

Innan Evrópusambandsins fara núna fram miklar umræður um grundvallarbreytingar sem fjármagnsöflin vilja gera á Evrópu og er ég þar að vísa í þjónustutilskipunina sem félagsleg öfl og verkalýðshreyfing andmæla af fullri hörku. Sýnt þykir að reynt verði að valta yfir þessi öfl. Ekki orð um þetta frá Framsóknarflokknum, heldur aðeins eldheitar ástarjátningar á Evrópusambandinu. Síðan frábið ég mér þetta tal um EES-samninginn. Hann er sú lilja sem allir vildu kveðið hafa, er nú sagt. Ég var aldrei og er ekki enn gefinn fyrir það ljóð og mér finnast menn furðulega lítið gagnrýnir á þann samning.

Ég hef hreyft þeirri hugmynd, sem og reyndar margir aðrir og þeim fer fjölgandi, að við eigum að reyna að þróa samskiptin við Evrópusambandið yfir í tvíhliða samkomulag. Ég er ekki að leggja til að við segjum okkur nú frá EES-samningnum, heldur eigum við að hafa þetta langtímamarkmið í huga. Þarna er grundvallarágreiningur á milli þeirra sem vilja halda rakleiðis til Brussel og sækja um aðild að Evrópusambandinu annars vegar og hins vegar hinna sem vilja varðveita sjálfstæði Íslands og lýðræðislegt svigrúm sem við m..a. höfum á þessari samkundu til ákvarðana um hvernig við skipuleggjum samfélag okkar. Þessi spurning verður æ áleitnari í ljósi þess sem verið er að þröngva upp á okkur í seinni tíð og er fyrirsjáanlegt á komandi mánuðum og árum.

Hins vegar ber að sjálfsögðu að fagna því að menn komi hreint til dyranna og auðvitað er gott að Framsóknarflokkurinn komi út úr skápnum og segi hvað fyrir honum vakir. Við vitum hins vegar að innan Framsóknarflokksins eru harðvítugar deilur um þetta. Annars vegar eru hæstv. ráðherrar Halldór Ásgrímsson og Valgerður Sverrisdóttir og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir og fleiri sem ólm vilja komast til Brussel og hins vegar er það hinn félagslega þenkjandi armur sem er þessu andvígur. Hann mun að sjálfsögðu, eða hlýtur að hugsa sinn gang þegar þessi stefna er að verða ofan á sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir segir að sé raunin, að þessi stefna sé orðin ofan á í Framsóknarflokknum og það sé bara tímaspurning hvenær henni verði fylgt eftir. Þess vegna hljótum við að gera þá kröfu til fulltrúa Framsóknarflokksins við þessa umræðu, ekki aðeins hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur, að þeir tali skýrar um það til hvers vilji þeirra stendur. Auðvitað þurfa menn að gera það.

Við erum að ræða skýrslu um störf norrænu ráðherranefndarinnar. Ég vil taka það fram að ég er mjög fylgjandi norræna samstarfinu og ég tek undir margt sem kom fram í ræðu hæstv. ráðherra um það efni. Ég tel að Íslendingar eigi að styrkja þetta samstarf eftir megni. Vissulega á norrænt samstarf að sumu leyti undir högg að sækja og það er rétt sem fram hefur komið við þessa umræðu að að hluta til er það vegna þess að ákvarðanavald í mikilvægum málum hefur færst annað, færst frá einstökum ríkjum og yfir til Evrópusambandsins. Það er alveg rétt og norrænt samstarf á af þeim sökum nokkuð undir högg að sækja.

Ég spyr: Er það ekki annað líka sem veldur því að norrænt samstarf á í erfiðleikum? Þó að ég vilji reyndar ekki gera of mikið úr því ber engu að síður að horfa á það með raunsæjum augum. Getur verið að mönnum finnist stundum vera óþarflega mikið bil, gjá jafnvel, á milli orða og athafna? Á milli þess sem menn segja annars vegar og þess sem þeir gera hins vegar? Þá horfi ég t.d. til þessarar skýrslu. Íslendingar gegndu formennsku í norrænu ráðherranefndinni í fyrra og höfðu þar sem leiðarljós lýðræði, menningu og náttúru. Þetta er sama ríkisstjórnin og virkjaði við Kárahnjúka þvert á vilja náttúruverndarsamtaka og þvert á vilja mjög stórs hluta íslensku þjóðarinnar sem taldi að þar yrðu unnin spjöll á íslenskri náttúru. Þá setur íslenska ríkisstjórnin sem gegnir formennsku í norrænu ráðherranefndinni þetta fram sem sérstakt keppikefli, að varðveita náttúruna. Kárahnjúkaflokkurinn Framsóknarflokkur siglir fram undir þessu merki í norrænu samstarfi.

Hvað er það annað? Það er lýðræðið. (Viðskrh.: Það er lýðræði …) Hæstv. ráðherra Valgerður Sverrisdóttir fór fögrum orðum um lýðræðið, vísaði í ágæta nefnd sem unnið hefur á vegum Norðurlandaráðs og ráðherranefndarinnar, lýðræðisnefndarinnar, þar sem farið er í mörgum liðum yfir það hvað megi gera til að efla lýðræðið á Norðurlöndum. Nefndin leggur til, segir hér m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Norrænu ríkin og sjálfstjórnarsvæðið móti stefnu sem miði að því að standa vörð um, vernda og treysta lýðræðið, bæði hið staðbundna lýðræði og á landsvísu. Lýðræðisáætlunin taki bæði til lýðræðis sem stjórnarforms og sem menningar og lífsstíls.“

Við eigum að auka þekkingu á lýðræðinu og við eigum að kanna möguleika sem ný tækni býður upp á til að nýta okkur kosti lýðræðisins. Hvers vegna? Vegna þess að menn vilja væntanlega virða lýðræðislegan vilja. Á góðum stundum er talað um gildi þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Hvers vegna? Menn vilja virða lýðræðislegan vilja. Er það ekki það sem þetta gengur út á?

Hvernig er þetta síðan í reynd? Í morgun var talað um skoðanakannanir sem sýna að vilji yfirgnæfandi hluta íslensku þjóðarinnar er að Landssíminn verði í þjóðareign, í almannaeign. Síðustu skoðanakannanir hafa reyndar mælt viljann til að halda grunnnetinu hjá þjóðinni, yfirgnæfandi meiri hluti er á því máli, og þær eru samsvarandi fyrri könnunum sem gerðar hafa verið um eignarhald á Símanum. Hvað gerir ríkisstjórnin varðandi þetta? Hvað gerir hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem var uppnuminn hér áðan, uppnuminn að ræða um lýðræðið og mikilvægi þess, að stuðla að og efla lýðræði? Þetta er sama ríkisstjórnin og fór með okkur inn í Íraksstríðið, gerði okkur að þátttakendum í innrásinni í Írak og hernáminu þar gegn vilja yfirgnæfandi hluta íslensku þjóðarinnar. Hvar var lýðræðisástin þá? (ÁRJ: Bara í orði, ekki á borði.) Hún er í orði en ekki á borði. Þetta er sá vandi sem menn standa frammi fyrir þegar samtök eða ráð sem menn heyra til segja eitt en gera annað. Þá brestur trúverðugleikinn, þá brestur eitthvað.

Ég held að margir sem hlustuðu á fulltrúa Framsóknarflokksins, hæstv. ráðherra Valgerði Sverrisdóttur, ræða um lýðræðið og um náttúruna … (Gripið fram í: … lýðræðinu …) Já, sýnir lýðræðinu og lýðræðislegum vilja mikinn hroka, hrokafulla afstöðu. Hún er að hóta þjóðinni því núna að ganga enn lengra í náttúruspjöllum en nokkru sinni fyrr. Það er ferðast um í sumar með fulltrúum alþjóðlegra auðhringa, íslensk fallvötn boðin og hótað að eyðileggja náttúruna enn meira, vinna enn meiri spjöll. Síðan er haldið á fína fundi á Norðurlöndunum og fánar dregnir að húni, talað um menningu, lýðræði og náttúru, þetta sé leiðsögn Íslands þegar hún verst í norrænu samstarfi. Er þetta hægt? Að sjálfsögðu er þetta ekki hægt. Það er þetta sem grefur undan trúverðugleikanum í norrænu samstarfi, hygg ég. Þess vegna eigum við að reyna að finna leiðir til að færa norrænt samstarf — eigum við að segja raunverulega? — á markvissari hátt að daglegu lífi og ákvörðunum sem skipta máli í nýjum heimi þar sem ákvarðanir Evrópusambandsins vega þyngra, en ekki aðeins Evrópusambandsins heldur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og fleiri aðila. Þarna eigum við að reyna að bindast traustari böndum og hafa meira samstarf. Mig langar til að vísa í grein sem birtist í Morgunblaðinu þann 26. febrúar frá verkalýðssamtökum á Norðurlöndum. Ég er í hópi þeirra og á þar mína undirskrift og mig langar til að lesa úr þessu bréfi, með leyfi forseta. Yfirskriftin er „Kallað eftir frumkvæði Norðurlandaráðs“:

„Nýverið lauk deilu milli samtaka sænskra byggingaverkamanna (Byggnadsarbetarförbundet) og lettnesks byggingafyrirtækis um kaup og kjör lettneskra byggingaverkamanna sem störfuðu við byggingu skóla í Vaxholm í nágrenni Stokkhólms. Deilan kom upp í Svíþjóð en það hefði eins getað verið í Danmörku, Noregi eða Finnlandi. Stéttarfélagið setti verkbann á byggingarframkvæmdirnar þar sem lettneska fyrirtækið neitaði að undirrita sænskan kjarasamning. Eftir að hafa gert upp við viðkomandi sveitarfélag hefur lettneska fyrirtækið hætt störfum við byggingu skólans. Þessi vinnudeila er dæmi um hvað getur gerst þegar frelsi fyrirtækja rekst á við þá meginreglu að innlendir samningar um kaup og kjör starfsmanna skuli gilda. En deilan snýst ekki einungis um það. Hún snertir einnig kjarnann í hinu norræna velferðarkerfi, sem byggist á velferð fyrir alla, sterkri stöðu stéttarfélaga og traustum kjarasamningum. Sem talsmenn og fulltrúar samtals 400.000 starfsmanna í almannaþjónustu, teljum við ríka þörf fyrir að standa vörð um norræna kerfið á vettvangi ESB/EES. Ekki til þess að vinna baráttuna um hvaða velferðarkerfi á að vera ráðandi heldur til þess að tryggja að fleiri aðferðir geti verið til og þróast samhliða í evrópsku samstarfi.“ — Það er verið að tala þarna fyrir fjölbreytileikanum gagnstætt því sem þjónustutilskipunin leggur til. Áfram, með leyfi forseta:

„Í mörg ár hafa Norðurlöndin unnið saman í Norðurlandaráði, bæði tvíhliða og á alþjóðlegum vettvangi. Á undanförnum árum hefur sú samvinna ekki farið hátt. Það virðist umhugsunarefni, einmitt vegna þess að við á Norðurlöndunum eigum svo margt sameiginlegt, bæði sögulega og menningarlega, og líka vegna þess að við höfum valið sömu aðferð til að byggja upp velferðarkerfi sem við köllum norræna kerfið. Nú virðist sem hið evrópska samstarf hafi forgang en norræna samstarfið kemur haltrandi á eftir. Þetta finnst okkur vera óæskileg breyting, sérstaklega í ljósi þeirra mörgu krefjandi verkefna sem hið norræna kerfi stendur frammi fyrir varðandi nútímavæðingu opinbera geirans. Hér er þörf fyrir Norðurlandaráð sem sameiningarafl og leiðandi aðila í því starfi að styrkja og þróa áfram norrænt kerfi með velferð fyrir alla í fyrirrúmi og öfluga verkalýðshreyfingu. Það er jarðvegur fyrir jákvæða þróun á Norðurlöndunum. Við vitum að viðhorf almennings til norræna velferðarkerfisins er jákvætt. Stjórnmálamennirnir hafa líka umboð til að bæta og þróa kerfið áfram.“

Bréfið er lengra en tími minn er þrotinn. Ég vildi vekja athygli á þessu ákalli sem kemur frá norrænni verkalýðshreyfingu um að styrkja norrænt samstarf.