131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Norræna ráðherranefndin 2004.

516. mál
[12:15]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir lokaorð sín um að hann vilji styrkja norrænt samstarf. Hann hefði mátt nota meiri tíma af ræðu sinni í að tala um norrænt samstarf að mínu mati, en formennskuyfirskrift Íslands var þessi, með leyfi forseta:

„Auðlindir Norðurlanda – lýðræði, menning, náttúra.“

Með auðlindum var átt við norræna samfélagsgerð, félagslegar aðstæður á Norðurlöndum, sameiginlegan menningararf Norðurlandabúa og náttúruauðlindirnar.

Hv. þingmaður kemur upp og reynir að draga upp þá mynd af þeirri sem hér stendur að hún sé ekki lýðræðissinni og reynir að færa rök fyrir máli sínu á ýmsan hátt, t.d. vegna þess að ég hafi staðið fyrir því að virkjað var við Kárahnjúka. Hvernig var ákvörðun tekin um það mál? Hún var tekin á hv. Alþingi og ef ég man rétt voru 9 þingmenn af 63 á móti. Ef þetta er ekki lýðræði bið ég hv. þingmann að útskýra fyrir mér hvernig hann hugsar sér lýðræði.

Hann talar um sölu Símans og að skoðanakannanir sýni að fólkið í landinu vilji ekki selja hann. Það vill svo til að ákvörðun um sölu Símans var tekin fyrir kosningar. Í þeim kosningum hélt Framsóknarflokkurinn fylgi sínu þrátt fyrir þá stefnu sína að vilja selja Símann en Vinstri grænir, sem vildu náttúrlega ekki selja Símann frekar en nokkurn annan hlut, töpuðu manni í þeim kosningum. Nú vill hv. þingmaður að hlaupið sé á eftir skoðanakönnunum þrátt fyrir að við framsóknarmenn höfum haldið flokksþing fyrir nokkrum dögum og þar var ekki nokkur maður sem var á móti því að selja Símann eða vildi halda grunnnetinu eftir.