131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Norræna ráðherranefndin 2004.

516. mál
[12:21]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að við séum ekki komin út fyrir efnið. Við erum að velta þeirri mikilvægu spurningu fyrir okkur hvað við meinum með því sem við segjum og hvað við meinum með skýrslunni sem er til umfjöllunar í þinginu. Það er viðfangsefni okkar. Ég er að vísa til þess og lýsa samþykki við þá hugsun sem fram kemur í skýrslunni um að efla eigi og styrkja lýðræðið og færa það út og ég er að segja að það er lýðræðislegra að taka afstöðu til mestu hitamála samtíðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu en á Alþingi.

Ég er að vísa í tiltekin dæmi þar sem stjórnarflokkarnir hafa lagst mjög hart gegn slíku. Ég vísaði í EES-samninginn á sínum tíma og ég hef vísað í Kárahnjúkavirkjun þar sem mjög mikið misræmi virtist vera samkvæmt öllum könnunum á milli viljans í þinginu annars vegar og þjóðfélaginu hins vegar. Þá var því hafnað að samþykkja tillögu sem við bárum fram, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, um að nákvæmlega þetta gerðist, að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.

Síðan kemur hæstv. ráðherra og segir: Þjóðaratkvæðagreiðslur eiga virkilega rétt á sér. Svona tala menn á góðum stundum. En síðan er von að mönnum bregði við umræðuna og eitthvað fari úrskeiðis. En það sem við vekjum athygli á er nákvæmlega þetta misræmi. Hæstv. ráðherra segir að þjóðaratkvæðagreiðsla eigi virkilega rétt á sér, nema náttúrlega í Kárahnjúkum, í EES og í Landssímanum, ekki í þeim brennandi hitamálum samtíðarinnar sem snerta núverandi ríkisstjórn. Þetta er að segja eitt og gera annað.