131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Norræna ráðherranefndin 2004.

516. mál
[12:26]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vinstri hreyfingin — grænt framboð er ekki Alþýðubandalagið, nema Samfylkingin sé Alþýðuflokkurinn. Nýjar hreyfingar eru komnar fram ólíkt upp byggðar en fyrri flokkar og við eigum að bera virðingu fyrir kjósendum og fyrir þeim sem fylla raðir hreyfinganna sem koma úr ýmsum áttum og meiri virðingu en svo að við smellum á þá einhverjum slíkum merkimiðum.

Áherslur okkar eru vissulega fyrst og fremst velferðarsamfélagið og velferðarmál og helsta gagnrýni sem við höfum sett fram á Evrópusambandið er hve mjög það er skipulagt á forsendum fjármagnsaflanna og hve lítið svigrúm lýðræðislega kjörnum ríkisstjórnum gefst til að skipuleggja samfélög sín með velferðarmál og samhjálp að leiðarljósi. Þetta er einmitt sú gagnrýni sem hefur verið sett fram síðustu mánuðina varðandi þjónustutilskipunina. Áherslur eru vissulega mismunandi í íslenskum stjórnmálum. Við höfum átt ágæta snertifleti við margt sem hefur komið fram hjá Samfylkingunni þó okkur finnist hún stundum of höll undir einkavæðingardrögin í sumum tilvikum en við höfum þó náð ágætum snertiflötum hvað þetta snertir. Þar stöndum við mjög fjarri Sjálfstæðisflokknum, það er staðreynd.

Varðandi Evrópumálin þá nálgumst við þau mál úr gerólíkum áttum. Þetta er ekkert tvíhliða samkomulag við Evrópusambandið gagnstætt innlimun. Sjálfstæðisflokkurinn hefur engan einkarétt á þeirri afstöðu. Ég hef t.d. verið þeirrar skoðunar í mjög langan tíma og það á við um mjög marga innan vébanda okkar.

Ég svara fúslega fyrir mína hönd og þá sem ég þekki til í mínum flokki og ekkert óeðlilegt við að ræða það en við skulum síðan láta aðra um að tjá sig fyrir sína flokka. Ég saknaði þess að Framsókn talaði ekki aðeins skýrar.