131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Norræna ráðherranefndin 2004.

516. mál
[12:30]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef alltaf svolítið gaman af að hlusta á Samfylkinguna tala um Evrópusambandið og hinn stóra heim. Henni finnst hún óskaplega alþjóðlega þenkjandi og alþjóðlega sinnuð þegar hún vill halda til Brussel en í rauninni eru þetta ekkert annað en einangrunarsjónarmið. Samfylkingin vill að Ísland einangrist innan Evrópu en ég vil hafa allan heiminn undir. Ég vil horfa til alls heimsins.

Ég tel, þótt ég telji þjónustutilskipun Evrópusambandsins vera alvarlegt tilræði við okkur, að miklu alvarlegri hlutir séu að gerast á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar WTO í GATS-samningunum. Samsvarandi tilraunir til að greiða götu fjármagnsins hafa verið gerðir innan OECD, t.d. MAI-samningarnir, Multilateral Agreement on Investment. Við eigum að horfa til þess sem er að gerast í hinu alþjóðlega umhverfi, ekki taka upp hina smásmugulegu einangrunarstefnu Samfylkingarinnar og Evrópusinna í Framsóknarflokknum heldur horfa til heimsins alls. Í því samhengi eigum við að horfa til Norðurlandanna sem byggja á svipaðri arfleifð og við. Við viljum, þrátt fyrir þá ríkisstjórn sem hér situr, styrkja lýðræðislega innviði samfélagsins. Við eigum að horfa til þessara landa og til norræns samstarfs þegar við höldum út í hinn stóra heim, ekki bara til Brussel, heldur til Washington og Tokyo og New York — til alls heimsins, þar sem hlutirnir eru að gerast.