131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Norræna ráðherranefndin 2004.

516. mál
[12:32]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég kom í andsvör fyrr í umræðunni og spurði hæstv. ráðherra út í þá skýrslu sem hér er til umræðu. Mér fannst hún ekki taka þeim spurningum vel. Ég spurði efnislega um skýrsluna, sem varðaði lýðræðið, og þá nefnd sem átti að fjalla um lýðræðið á Norðurlöndum og hvernig ætti að tryggja það.

Það blasir hins vegar við öllum þeim sem eitthvað velta þessum hlutum fyrir sér að það eru ákveðin vandamál á Íslandi sem ekki eru annars staðar á Norðurlöndunum, þ.e. að stjórnmálaöfl, stjórnarflokkarnir sérstaklega, leyna því hverjir greiði í kosningasjóði þeirra.

Ég fékk hins vegar engin svör frá hæstv. ráðherra, ég ítreka það, nema það að ég var sakaður um rangfærslur. Þá er það lágmarkskrafa að hæstv. ráðherra gefi upp hvað var rangt.

Einnig var látið að því liggja að ég hefði dregið úr virðingu Alþingis, hefði dregið hana niður með þessari umræðu. Ég tel það af og frá. Ég tel miklu frekar að þeir flokkar sem leyna því hverjir greiði í sjóði flokkanna dragi virðingu Alþingis niður í svaðið. Ég tel að þeir flokkar dragi jafnframt úr virðingu Alþingis með því að skipa flokkspólitíska aðila í Hæstarétt, tengda flokkunum. Mér finnst slíkt hvorki til að auka virðingu Alþingis né Hæstaréttar og dómskerfisins. Í nýlegum skoðanakönnunum kemur í ljós að fólk setur spurningarmerki við þessar stofnanir. Ég held að hæstv. ráðherra ætti að íhuga hvers vegna það er.

Ég velti því fyrir mér hvað úr ræðu minni hæstv. ráðherra telur að ég hafi farið rangt með. Var það þegar ég minnti hæstv. ráðherra á samráðssvik olíufélaganna? Var það þegar ég minnti á það að Shell hefði verið tengt Sjálfstæðisflokknum, frú forseti, ég átta mig ekki á því, eða að Essó væri tengt Framsóknarflokknum?

Ég minni á að það eru ekki bara við í Frjálslynda flokknum sem höfum bent á þetta heldur einnig prófessor í Háskóla Íslands, Svanur Kristjánsson benti á þetta. Við í Frjálslynda flokknum höfum sett spurningarmerki við þetta og velt því fyrir okkur, þegar við höfum keypt af þessum ágætu félögum, t.d. þegar við höfum verslað við Shell, eins og ég geri venjulega, hvort ég hafi verið að dæla nokkrum krónum í kosningasjóði Sjálfstæðisflokksins. Mér finnst það alveg óþolandi. Sama gildir ef menn hafa verslað, sem margir gera í mínum ágæta flokki, við Essó. Hafa þeir þar með dælt nokkrum krónum í kosningasjóð Framsóknarflokksins?

Það er fleira sem ræða mætti í sambandi við lýðræðið. Ég skil í raun ekki að nefndin sem fjallar um lýðræðið á Norðurlöndum skuli ekki taka á þessum málum. Að vísu nefndi ráðherra tölfræði út og suður en það þarf ekki tölfræðing til að sjá að þetta býður upp á spillingu. Þetta er algjörlega óþolandi ástand.

Það kemur víðar fram að taka þurfi til í lýðræðinu á Íslandi. Við sjáum að það stendur til að herða flokkspólitísk tök á ýmsum stofnunum. Það er í umræðunni að dreifa á næstu dögum frumvarpi um Samkeppnisstofnun þar sem treysta á flokkspólitísk tök á stofnuninni. Ef til vill eru það hefndaraðgerðir fyrir að hafa tekið á Shell og Essó. Það hefur komið fram hér í umræðunni að það eigi einmitt að hefta þá stofnun þannig að velunnarar flokkanna, sem eru duglegir að greiða í kosningasjóði Framsóknarflokksins, fái að vera í friði með sín samráð. Stofnunin hefur ekki verið efld þrátt fyrir fögur loforð. Starfsmannafjöldinn núna er álíka og hann var fyrir 10 árum.

Það er fleira sem ekki verður látið í friði og flokkspólitísk tök hert víðar, hjá flokkum sem leyna því hverjir greiða í kosningasjóði flokkanna. Þar mætti nefna vísindasiðanefnd, sem er flokkspólitísk. Þetta er hlægilegt en í raun sorglegt að svo skuli vera með siðanefnd sem á að hafa eftirlit með því hvort vísindin séu siðleg. Þarna þurfa flokkarnir að fara yfir og horfa yfir öxlina á mönnum.

Ástandið hefur verið staðfest víðar og m.a. hefur það komið fram hjá fyrrum gjaldkera Framsóknarflokksins að þar sé pottur brotinn. Unnur Stefánsdóttir, fyrrverandi gjaldkeri flokksins, greindi frá því að einstaklingum, sem fengið hefðu störf í gegnum flokkinn, hafði verið launað með vel launuðum störfum, að það væri hálfpartinn ætlast til þess að þeir greiddu það til baka í flokkssjóðinn. Auðvitað er þetta eitthvað sem nefnd sem í situr fyrrum alþingismaður, Kristín Ástgeirsdóttir sagnfræðingur, ætti að gaumgæfa og skoða.

Fróðlegt væri að fá svör við öðrum spurningum en spurningunni um það hvað ég hafi farið rangt með. Þar mætti nefna það sem nefndin leggur til á bls. 5 í skýrslunni. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þá leggur nefndin til við norrænu ráðherranefndina að skipaður verði fastur vinnuhópur sem hafi það hlutverk að standa vörð um, vernda og efla lýðræði á Norðurlöndum.“

Ég vil taka undir þetta. Það er full þörf á að skipa slíkan starfshóp. Eins og ég hef nefnt þá er ástandið ekki gott á Íslandi að þessu leyti. Við verðum að skoða þetta gagnrýnum augum. Ég trúi ekki öðru en ráðherra taki undir það að ástandið sé óþolandi. Við verðum í raun að leita út fyrir okkar heimsálfu til að sjá viðlíka ástand, þar sem stjórnmálaöfl sem kenna sig við lýðræðið leyna því hverjir greiði í kosningasjóði flokkanna. Svo er skipuð nefnd sem á að skila skýrslu og ég tel í raun, ef það er ekki einhver fín dúllerísnefnd, að þetta sé einmitt það sem nefndin ætti að ræða, vandamálin hér á Íslandi.

Fleiri dæmi væri hægt er að nefna um hve víða pottur er brotinn á Íslandi hvað varðar lýðræðið. Það kemur fram hér á bls. 5 að verksvið nefndarinnar miði m.a. að því, með leyfi forseta:

„Norðurlönd og sjálfstjórnarsvæðin beiti sér fyrir því að bæta aðstæður og auka áhrif kjörinna fulltrúa við staðbundnar ákvarðanatökur.“

Ég vil líka taka undir þetta en það er svolítið sérstakt að skoða tillögur nefndarinnar og sjá síðan framkvæmd ráðherra Framsóknarflokksins, sérstaklega eina tiltekna ákvörðun, þ.e. þá ákvörðun hæstv. félagsmálaráðherra að útiloka tvo flokka sem eiga þó fulltrúa á þingi frá því að sitja í nefnd sem varðar málefni sveitarfélaga, sameiningu sveitarfélaga. Það er afar sérstakt að lesa þessa fínu skýrslu og bera hana við framkvæmdina hjá Framsóknarflokknum og hæstv. félagsmálaráðherra. Hér kynnir hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, samstarfsráðherra Norðurlandanna, skýrslu með ágætum tillögum. En um svipað leyti ákveður annar ráðherra sama flokks að útiloka kjörna fulltrúa frá þátttöku í lýðræðislegu starfi. Þetta er með ólíkindum.

Ég skora enn og aftur á hæstv. ráðherra að svara því hvað var sem var rangt í máli mínu í umræddu andsvari. Það er óþolandi að sitja undir dylgjum um að hv. þingmenn fari með rangt mál en síðan er ekki greint frá því. Hæstv. landbúnaðarráðherra var t.d. með dylgjur um að einhver hefði verið með dónaskap um daginn án þess að tilgreina hvað það væri þegar óskað var eftir skýringum. Það er mjög sérstakt.

Það er lágmarkskrafa til hæstv. samstarfsráðherra Norðurlandanna að hún greini frá því, þegar hún sakar þingmenn um ósannindi, hvað er rangt í máli þeirra.