131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Norræna ráðherranefndin 2004.

516. mál
[13:11]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég lagði nokkrar spurningar fyrir hæstv. ráðherra áðan þar sem ég fjallaði um þessa ágætu skýrslu. Ekki var mikið um svör hjá hæstv. ráðherra og hún beindi því til mín að leggja fyrirspurnir fyrir fagráðherrana og ég mun gera það, ég mun leggja þær fyrirspurnir sem ég lagði fyrir hæstv. samstarfsráðherra Norðurlandanna fyrir fagráðherra hér.

En ég vil gjarnan spyrja hæstv. ráðherra einnar spurningar vegna svars hennar um tilraunir með erfðabreytt matvæli, sem er greinilega á döfinni hér á landi því hæstv. ráðherra vitnaði til þess að Evrópulöndin eru með frekar íhaldssama stefnu í þessum málum en Bandaríkin eru frjálslyndari, og ég fagna því ef Ísland ætlar að taka í svipaðan streng og Evrópuþjóðirnar. En ég vil gjarnan spyrja hæstv. iðnaðarráðherra hvort hún væri tilbúin að styðja það að Ísland yrði erfðabreytt-frítt land, þ.e. eins og ýmis Evrópuríki hafa þegar lýst yfir, að þau erfðabreyta ekki matvælum í löndum sínum. Það væri fróðlegt að heyra hvort hæstv. iðnaðarráðherra væri tilbúin að styðja það.