131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[14:03]

Kristinn H. Gunnarsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að það sé ekki hægt að leiða mál svona til lykta, sérstaklega ef fleiri skref verða síðan stigin í sömu átt með því að breyta öðrum skólum eða deildum í hlutafélög eða slíkt, án þess að fara í gegnum umræðuna um skólagjöld. Það er að mínu viti alveg augljóst mál.

Mín afstaða er alveg ljós. Ég tel að það eigi ekki að vera skólagjöld. Það þýðir ekki endilega að ég segi fyrir fram að ég muni ekki fallast á neitt annað þegar umræðunni lýkur en að það verði skólagjöld. Ég held því alveg opnu fram að því að fram hafa komið þau rök og mótrök og upplýsingar sem eðlilegt er að draga fram í svona umræðu. Menn gætu þá tekið ákvarðanir á þeim grundvelli og út frá tilteknum forsendum. En eins og málin horfa við mér núna er ég á því að það eigi ekki að taka upp skólagjöld í háskólanámi.

Ég er einnig þeirrar skoðunar, sem er kannski ekki síður aðkallandi að greiða úr, að það geti ekki gengið að ríkið greiði mismunandi fjárhæðir fyrir menntun eftir eignarhaldi skóla.