131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[14:04]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi einmitt náð að benda á hið mikilvægasta í þessu samhengi, þ.e. að þegar svona krókaleiðir eru farnar í að reyna að innleiða skólagjöld þá mismuna menn skólum á sama tíma. Það gerir málið býsna flókið.

Ég tók eftir því að hv. þingmaður sagði ekki útilokað að lausnin væri sú að skólagjöld yrðu hugsanlega tekin upp í einhverri mynd. Hv. þingmaður benti mjög greinilega á það í ræðu sinni að skólagjöldin í þeim skólum sem innheimta skólagjöld eru niðurgreidd af hálfu ríkisins í gegnum Lánasjóð íslenskra námsmanna. Þess vegna er nauðsynlegt að málið sé allt saman skoðað í heild sinni í stað þess að taka það með svona hliðarskrefum eins og ég tel um að ræða í þessu tilviki. Ég heyri að hv. þingmaður er algjörlega sammála mér um það.

Hér fer því fram býsna mikilvæg umræða og ég vil nota þetta tækifæri til að hvetja hv. þingmann til að reyna að hafa þau áhrif í flokki sínum að heildstæð umræðan verði tekin upp. Mér sýnist ljóst að hæstv. menntamálaráðherra hafi ekki áhuga á því að ræða málið í heild, hvorki innan stjórnarliðsins né í þingsölum. Það er því ástæða til að allir hv. þingmenn sem áhuga hafa á að ræða þessi mál í heild sinni leggist á árina með það þannig að við getum tryggt að þessi umræðan fari fram, áður en þau öfl sem nú ráða för í Sjálfstæðisflokknum ná að rústa því kerfi sem við höfum haft og taka upp skólagjöldin í þeirri mynd sem þeir vilja en ekki kerfi eins og við viljum, þ.e. sem tryggir jafnrétti til náms sem hlýtur að vera grundvöllur afstöðu okkar til skólagjalda og fyrirkomulags við háskólanám í landinu.