131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[14:06]

Frsm. 1. minni hluta menntmn. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Að undanförnu hefur farið merkileg skólapólitísk umræða sem tekur til flestra grundvallarþátta í fyrirkomulagi okkar við menntun á háskólastigi. Þetta kom ágætlega fram í ræðu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar og hefur komið fram við bæði 1. og 2. umr. málsins.

Málið vekur margar stórar spurningar sem við höfum kallað eftir að verði svarað. Við höfum spurt forustumenn menntamálanefndar, stjórnarliða og hæstv. menntamálaráðherra og þá sem að stofnun og hins nýja skóla koma. Við höfum krafið þau svara en ekki fengið viðunandi svör við þeim spurningum sem þarf að svara til að við getum léð málinu stuðning okkar.

Við réttum fram sáttarhönd til að ná um málið þverpólitískri samstöðu á Alþingi, um þetta mikilvæga mál sem er að mörgu leyti framfaramál fyrir íslenska skólamenntun. Um það blandast engum hugur. En það hvernig er staðið að málinu og það sem út af stendur gerir það að verkum að ekki er hægt að styðja málið nema á því verði breytingar. Við lögðum til í breytingartillögu að einkareknir háskólar skyldu verða sjálfseignarstofnanir en ekki einkahlutafélög. Hún var felld í gær, því miður. Það var sáttarhönd okkar, til að reyna að ná samstöðu um þetta mikilvæga mál sem er mjög áríðandi að farnist sem best.

Við höfum líka varpað fram mörgum öðrum spurningum. Málið tekur til almennrar stefnumörkunar í íslenskum menntamálum og eins og bent var á í mörgum umsögnum frá skólasamfélaginu til menntamálanefndar þá vekur það fleiri spurningar en það svarar, bæði málið sjálft og samningurinn á bak við hinn nýja skóla.

Vert er að nefna tvær meginspurningar. Varðandi gjaldtöku á háskólastigi spyr Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólans á Akureyri: Hver verða afdrif gjaldtöku á háskólastigi almennt? Stendur áfram sú stefna stjórnvalda og stjórnarflokkanna, sem ég held að megi fullyrða að sé í gildi, að ekki eigi a ð vera um að ræða gjaldtöku á grunnnám á háskólastigi? Þegar búið er að taka eina grein út úr, tækninámið, og setja inn í einkarekinn háskóla gegn skólagjöldum, stendur þá enn þá stefna stjórnvalda um að ekki skuli innheimta skólagjöld á grunnnám á háskólastigi? Þeirri spurningu hefur ekki verið svarað. Ég get ekki ímyndað mér að svarið við henni sé já, svarið hlýtur að vera nei. Þeir múrar hljóta að vera brotnir og sú stefna sem hæstv. menntamálaráðherra hefur áður sagt að sé í gildi, að ekki eigi að innleiða skólagjöld á grunnnám á háskólastigi, fær ekki staðist lengur eftir þessa breytingu.

Við höfum kallað eftir framtíðarsýn og stefnumörkun. Eru þetta fyrstu skrefin í skólagjaldavæðingu íslensks grunnnáms? Hvernig á að bregðast við mismunun ríkisrekinna skóla annars vegar og einkarekinna skóla hins vegar hvað varðar fjármögnun? Hefur það verið rætt í stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna að þangað eigi að velta stórum hluta af kostnaði við rekstur hins nýja skóla? Við 1. umr. lagði ég þessar spurningar margoft fyrir hv. formann menntamálanefndar, sem jafnframt er formaður stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Mér skilst að þar hafi ekki verið rætt um þá pólitísku aðgerð að velta hluta af kostnaði við rekstur hins nýja skóla yfir á Lánasjóð íslenskra námsmanna.

Ein meginspurning okkar hefur verið um rekstrarformið. Við höfum spurt af hverju einkahlutafélagsformið sé valið á þennan nýja skóla fremur en að hafa hann sjálfseignarstofnun. Tveir rektorar, Þorsteinn Gunnarsson á Akureyri og Runólfur Ágústsson, rektor Viðskiptaháskólans á Bifröst, hafa varað við því að það að velja einkahlutafélag sem rekstrarform geti orðið til að skerða akademískt frelsi skólans. Þeir telja að það geti orðið honum til tjóns og veki óvissu sem engin ástæða sé til að kveikja, enda virðist um að ræða fordæmalaust rekstrarform á háskólastofnun í hinum vestræna heimi.

Hverjar verða afleiðingar þessa rekstrarforms, einkahlutafélags, á akademískt frelsi stofnunarinnar? Eins og fram hefur komið þá er það algjört grundvallaratriði og skilyrði háskólastarfs að þar ríki sjálfstæði og akademískt frelsi. Sé sjálfstæði og akademískt frelsi í háskóla skert er ekki um að ræða eiginlega háskólastofnun.

Við höfum kallað eftir skýrum svörum við því af hverju þetta rekstrarform skulið valið fremur en sjálfseignarstofnun. Sé um að ræða galla á því að reka skólann sem sjálfseignarstofnun sem geri það form ekki hentugt — en enginn hefur bent okkur á þá galla í þessari umræðu, hvorki í nefndinni né annars staðar — þá höfum við lagt til að eðlilegra væri að ráðast í endurskoðun laga um sjálfseignarstofnanir í staðinn þess að fara út í það órökstudda flan sem einkahlutafélag um háskólastofnun er að okkar mati. Við fluttum þess vegna breytingartillögu við frumvarpið sem því miður var felld í gær.

Við höfum bent á að algjört skilyrði fyrir starfi á háskólastigi sé að þar ríki skýrt og tryggt akademískt frelsi. Rektorar annarra skóla, sem reynsluna hafa, hafa fullyrt að sjálfseignarstofnunarformið sé hentugast til að tryggja það.

Þá höfum við bent á mikilvægi þess að áfram ríki valfrelsi í aðgengi að tækninámi, eins og mörgu öðru háskólanámi á Íslandi, að tækninámið verði ekki ein fárra greina tekin út úr opinberum skólum og sett í einkarekna háskóla gegn skólagjöldum. Við teljum að samhliða yrði að byggja upp og bjóða upp á tæknifræðinám við aðra skóla. Við höfum bent á Iðnskólann í Reykjavík og Háskóla Íslands í því sambandi og undir það hafa bæði stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar tekið, að það sé mikilvægt að sjá til þess að til framtíðar verði valfrelsi í tækninámi, að jafnrétti til náms ríki í tækninámi eins og flestu öðru námi á háskólastigi og því sé mikilvægt að ráðast í undirbúningsvinnu og athugun á hvernig því verði best fyrir komið í þeim skólastofnunum sem fyrir eru sem kenna skyldar greinar. Það er mjög áríðandi.

Við höfum kallað eftir framtíðarsýn stjórnvalda, hæstv. menntamálaráðherra, á hvert sé hlutverk hinna nýju háskóla til framtíðar. Háskóli Íslands er rannsóknarháskóli sem gert er að halda úti kennslu í ýmsum greinum, hvort sem það er gríska eða guðfræði, viðskiptafræði eða lögfræði, ekki einungis þeim greinum sem eru eftirsóttar og geta að einhverju leyti staðið undir sér með aðsókn nemenda og skólagjöldum heldur og öðrum greinum sem við teljum nauðsynlegt að kenna við íslenskan háskóla til að hann megi kallast alhliða og raunverulegur háskóli.

Hver er framtíðarsýnin, hvert er hlutverk þeirra skóla sem virðist eiga að byggja upp, annars vegar Háskólans í Reykjavík og Tækniháskólans sameinaðs og hins vegar Háskóla Íslands? Verður áfram um það að ræða að ekki verði tekin önnur gjöld í grunnnámi en felast í svokölluðum innritunargjöldum? Þetta er meginspurning sem hæstv. menntamálaráðherra verður að svara. Er þetta upphafið að skólagjaldavæðingu í íslensku grunnnám eða ekki? Þessum spurningum verður að svara og greina frá stefnumörkun stjórnvalda. Hvernig á að bregðast við þeirri mismunun sem skólarnir standa frammi fyrir varðandi eignarhald og fjármögnun? Þetta eru allt stórar spurningar, um gjaldtöku, skólagjöld, rekstrarform, hlutverk skólanna og skilyrði til skólastarfs. Ef þessum spurningum verður ekki svarað má fullyrða að við stöndum á krossgötum í íslenskum skólamálum án þess að nokkur vegvísir sé til staðar.

Það verður að marka skýra stefnu. Hér á að stíga stór skref, bæði hvað varðar rekstrarform á háskólastofnunum og gjaldtöku af grunnnámi í háskólum. Þessum spurningum verður að svara skýrt í dag, við 3. umr. um þetta mál. Við höfum óskað eftir svörum, lagt fram eindregnar skoðanir okkar á málinu og reynt að ná samstöðu um það með breytingum sem gerðu okkur kleift að styðja það. En þeirri viðleitni okkar hefur ekki verið svarað að neinu leyti.

Þetta eru þær spurningar varðandi málið sem ég vildi koma á framfæri við hæstv. ráðherra við 3. umr.