131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[14:16]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Farið hefur fram talsverð umræða um þetta þingmál við 1. og 2. umr. málsins. Nú er komið að lokasprettinum. Í stað þess að tíunda rækilega þau rök sem við höfum fært fram fyrir afstöðu okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði vil ég vísa í greinargerð 2. minni hluta í menntamálanefnd, sem hv. þingmaður, fulltrúi VG í nefndinni, Kolbrún Halldórsdóttir, stendur fyrir. Ég vil einnig vísa í þann málflutning sem hún hefur haft uppi um málið við fyrri umræður.

Þetta mál fjallar um grundvallaratriði, fleiri en eitt. Það fjallar um hvort opna eigi á skólagjöld í námi á háskólastigi, almennu námi á háskólastigi í tilteknum skóla. Vinstri hreyfingin – grænt framboð er andvíg því. Við höfum sett fram þingmál þar sem við leggjum til að svo verði ekki gert. Þetta mál fjallar um akademískt frelsi og stjórn háskóla. Þetta mál fjallar um ráðstöfun opinberra fjármuna því að tal um einkaskóla og ríkisskóla er að hluta til teoría, að hluta til akademísk umræða eins og stundum er sagt, vegna þess að í reynd snýst málið um ráðstöfun opinberra fjármuna, skattpeninga.

Mér fannst margt athyglisvert í ágætri ræðu sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson flutti um mismun á kostnaði ríkisskólanna af hálfu hins opinbera, sem styrkti einkaskólana með framlagi með tilliti til fjölda nemenda og fjármagnaði síðan óbeint skólagjöld með ódýrum lánum. Það er að vísu óbeinn stuðningur og stuðningur sem ég er síður en svo meðmæltur eins og ég gat um áðan en það er vert að hafa þetta í huga.

Mér finnst forsvarsmenn einkarekinna skóla stundum tala af nokkrum þjósti til okkar sem erum annarrar skoðunar en þeir um rekstrarform skólanna. Það er engu líkara en þeir telji eðlilegt að unnt sé að setja á fót skóla sem síðan eigi sjálftökurétt inn í skatthirslurnar. Auðvitað hljótum við að hugsa það mjög vel. Við sem erum eins konar fjárhagsmenn þjóðarinnar, sem ráðstöfum úr skattpyngju þjóðarinnar, hvernig það verði gert á sem markvissastan hátt þannig að peningarnir nýtist sem best. Þar hvílir mikil ábyrgð á okkar herðum. Það er út af þessu sem ég vil víkja orðum til hæstv. menntamálaráðherra, varðandi nýtingu skattfjárins.

Fyrst segi ég örfá orð um þær breytingar sem eru að verða á háskólaumhverfinu, ekki bara hér heldur á Vesturlöndum almennt. Að mörgu leyti standa háskólar á Vesturlöndum á tímamótum. Á 20. öldinni voru þeir að megninu til reknir af hinu opinbera, ríkinu. Í sumum tilvikum voru þeir reknir af sveitarfélögum eða þeir höfðu mjög sterka bakhjarla. Það þekkjum við vestan hafs, þ.e. svo sterka bakhjarla að þeir hugsuðu að sumu leyti á svipaðan hátt og hið opinbera. Skólarnir bjuggu við mikið sjálfstæði og voru í mörgum tilvikum og eru sjálfseignarstofnanir. Það er hin almenna mynd sem verið hefur á háskólaumhverfinu á Vesturlöndum fram á þennan dag.

Í skjóli þess öryggis sem ríkið, ríkisvaldið og skattborgarinn, hefur veitt þeim stofnunum hefur þrifist og dafnað það sem kallað hefur verið akademískt frelsi, þ.e. umhverfi sem er nokkuð sjálfrátt um það hvað það gerir. Efnahagslífið hefur síðan notið góðs af því. Í langtímarannsóknum hefur sitthvað komið upp á borðið sem hefur gagnast efnahagslífinu og fyrirtækjum sem þau hafa síðan iðulega tekið til sín og haldið rannsóknum áfram, stundum í samvinnu við háskólana, stundum á eigin spýtur. Það hefur verið góð samvinna milli hins opinbera og atvinnulífsins á þessum forsendum.

Nú er þetta að sumu leyti að breytast. Nú virðist eiga að hrófla við því fyrirkomulagi sem hefur boðið upp á langtímarannsóknir í akademísku umhverfi, akademísku frelsi sem kallað er. Menn virðast ætla að hrófla við því þar sem óþolinmóðari hugsun ryður sér til rúms. Menn eru farnir að hugsa á annan veg og vilja tengja rannsóknir atvinnulífinu þannig að það verði sýnt hverju sinni að það sem gert er innan veggja háskólans gagnist atvinnufyrirtækjum, gagnist viðkomandi í efnahagsstarfseminni núna.

Þetta er að sumu leyti skiljanleg afstaða og eðlilegt að fyrirtæki og atvinnulífið þrýsti á um þetta. En það er ekki þar með sagt að með því sé gætt hagsmuna heildarinnar þegar til langs tíma er litið. Í þessum anda er verið að búa til nýtt fyrirkomulag. Í stað þess að hugsa í stofnunum þá hugsum við í verkefnum og látum menn sanna sig gagnvart fjárveitingavaldinu, að verkefnið komi til með að gagnast samfélaginu, efnahagslífinu eða samfélaginu á einhvern hátt.

Þetta er að sjálfsögðu gott að því leyti að það hreyfir við værukærum stofnunum. Það getur hreyft við værukærum stofnunum. Mér finnst verkefni okkar að finna samspil þarna á milli, annars vegar að tryggja, stuðla að og styrkja akademískt umhverfi og hins vegar innleiða nýja hugsun sem hvata eða leið til að hrista upp í umhverfinu.

Mér finnst ekki einsýnt hvernig eigi að gera þetta. Það er það sem við í stjórnarandstöðunni höfum kallað eftir, að við vöndum okkur við þessa umræðu. Mér fannst ræða hv. þingmanns Kristins H. Gunnarssonar góð vegna þess að hann spurði ýmissa grundvallarspurninga að þessu leyti.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði teljum að rekstrarformið sem þarna á að taka upp sé ekki til góðs og ekki til að stuðla að þeim markmiðum sem við höfum talað fyrir. Ég ætla ekki að tíunda sjónarmið okkar nánar. Við höfum gert grein fyrir þeim og þau hafa komið rækilega fram. Ég vona að menn átti sig á því sem við höfum lagt áherslu á.

Ég ætla að beina spurningum til hæstv. menntamálaráðherra sem snúa að nýtingu fjármagnsins. Þegar maður les gögnin frá háskólamönnum eða þeim sem starfa í þessu umhverfi, í rekstrarumhverfinu innan þessara stofnana, þá hrekk ég sannast sagna svolítið við, þegar ég sé hve lítið mark er tekið á sjónarmiðum þeirra í mjög vel rökstuddu máli.

Menn spyrja t.d., í umræðunni um samkeppnina og samkeppnissjónarmið, hvort heppilegt sé til að skipuleggja háskólanámið á þeim forsendum annars vegar á eða hins vegar samvinnunnar, að styrkja tilteknar stofnanir til að gera vel. Þeir benda á hættuna af því að við förum að hokra á tveimur stöðum í stað þess að sameina krafta okkar. Menn segja að við eigum að horfa á þessa hluti í alþjóðlegu samhengi. Í stað þess að horfa á Tækniháskólann og Háskóla Íslands þá eigum við að horfa á Ísland og íslenskar menntastofnanir gagnvart umheiminum.

Fyrsta spurning mín til hæstv. ráðherra er: Hverju svarar hún þessu grundvallarsjónarmiði, sem sett er fram af hálfu háskólamanna í ýmsu formi?

Einnig hefur verið spurt hvort ráðherra sjái fyrir sér möguleika hins nýja skóla á að bjóða strax nám til meistaraprófs. Það er staðreynd að það hefur gengið illa fyrir Háskóla Íslands að bjóða rannsóknatengt meistaranám. Hv. þingmaður Kolbrún Halldórsdóttir rakti sögu þeirra mála innan háskólans við 2. umr., hvernig það hefði tekið breytingum á síðari árum og hve miklum erfiðleikum það hefði verið bundið að fá nægilegt fé frá fjárveitingavaldinu til náms af því tagi og til rannsókna almennt.

Ég get nánast af handahófi tekið sem dæmi að skorir í verkfræðideild Háskóla Íslands hafa sjö til átta fasta kennara. En til að halda uppi framhaldsnámi þyrfti að mati prófessora deildarinnar a.m.k. að tvöfalda þann fasta kjarna starfsmanna. Ég nefni þetta af handahófi úr þeim gögnum sem hafa verið reidd fram í þessu máli.

Ég vil leggja áherslu á þetta, að við erum í raun að dreifa kröftunum, í staðinn fyrir að gera hlutina verulega vel þá setja menn allt sitt traust á að samkeppni lítilla stofnana innan lands verði svo til góðs og það búi í henni svo mikill kraftur að hún yfirstígi og yfirvinni þá vankanta sem allir hljóta að viðurkenna að séu á því að hafa fjárhagslega óburðuga stofnun.

Ég vil heyra álit hæstv. ráðherra á þessari gagnrýni, að ríkisstjórnin fari með þessu illa með skattpeninga, það séu bara slæmir bisnessmenn sem ráðstafa peningum svo vitlaust í anda trúar sinnar á tiltekna hugmyndafræði, um samkeppni, um að samkeppni sé alltaf og undir öllum kringumstæðum til góðs. Menn ráðast í hana á öllum sviðum samfélagsins, jafnvel þótt sýnt sé fram á að hún leiði af sér hið gagnstæða.

Hæstv. forseti. Ég sagðist ekki munu hafa um þetta mörg orð. Við höfum gert rækilega grein fyrir sjónarmiðum okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Við höfum flutt þingmál og talað fyrir því um að tryggja gjaldfrítt nám á þeim sviðum sem teljast til almenns háskólanáms. Við höfum lagst gegn því að breyta rekstrarformi stofnana sem eru fjármagnaðar af hinu opinbera á þann veg að þær séu gerðar að hlutafélögum. Við höfum fært fyrir því rækileg rök.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um málið en bíð spenntur eftir að heyra svör hæstv. menntamálaráðherra.