131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[14:45]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst það sem hv. þm. Gunnar Birgisson sagði nú í rauninni styrkja málstað minn. Það er alveg rétt sem hann segir, það er orðið minna mál en áður var í ýmsu tilliti að sækja nám til útlanda. Þó að mér finnist það geta verið mjög góður hlutur, að menn sæki nám sitt út fyrir landsteinana, erum við engu að síður sem betur fer að færa út kvíarnar í íslenskum menntastofnunum. Nám sem áður var stundað erlendis er núna hægt að stunda hér á landi. Þannig hefur verkfræðinámið t.d. verið að eflast. Í skorum verkfræðideildar eru 7–10 fastir kennarar og þeir sem þar til þekkja segja að samkvæmt gögnum sem liggja fyrir nefndinni þyrfti að tvöfalda þennan kjarna til að við gætum af einhverju viti sinnt góðu rannsóknanámi.

Þess vegna, einmitt í ljósi vaxandi samkeppni við útlönd og auðveldara aðgengis manna að námi við erlenda háskóla, þurfum við að verja (Forseti hringir.) fjármunum okkar skynsamlega. Ég held að við séum ekki að því.