131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[14:49]

Frsm. meiri hluta menntmn. (Gunnar Birgisson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er gamalt íslenskt máltæki að sannleikanum verði hver sárreiðastur. Það má eiginlega segja að það sannist á hv. þingmanni.

Hv. þm. Sigurjón Þórðarson er áheyrnarfulltrúi í menntamálanefnd. Í gær fór hann þó út af fundinum og vildi ekki heyra rök eða svör þeirra gesta sem þar voru fyrir en hann var samt samþykkur áliti nefndarinnar (Gripið fram í: … í nefndunum.) með fyrirvara, stendur hér á bls. 4, þú verður nú að kunna að lesa þetta. Ég var ekki að gera annað en að vitna í ræðu sem ég fékk útprentaða, las bara hér orðrétt upp úr ræðu hv. þingmanns. (Gripið fram í: Þú ert með gamalt nefndarálit.)

(Forseti (SP): Forseti beinir því til hv. þingmanna að þeir veiti ræðumanni frið til að ljúka ræðu sinni.)

Þetta er nú þannig, virðulegi forseti, að þeir eru svo frjálslyndir í Frjálslynda flokknum varðandi ræður og annað að það kemur ekkert á óvart í þessu.

Burt séð frá öllu er náttúrlega mjög erfitt að svara þessum stóryrðum hv. þingmanns. Þetta er hér allt saman sem hv. þingmaður getur fengið sér til glöggvunar, útprentun á eigin ræðu og lesið hana og séð hvað stendur í henni. Í öðrum hluta ræðunnar er hann þarna og í hinum hlutanum er hann kominn hingað, og þá er hann ekki orðinn frjálslyndur lengur.