131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[14:51]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er eiginlega óhjákvæmilegt að fara í örstutt andsvar við hv. þm. Gunnar Birgisson, formann menntamálanefndar, vegna þess að það er með ólíkindum hvernig hv. þingmaður hefur hagað orðum sínum í umræðu um þetta stóra og mikla mál. Hv. þingmaður kemur ítrekað upp í ræður og fullyrðir að alltaf sé verið að spyrja sömu spurninganna og það sé búið að svara öllum þessum spurningum margoft. Það vill þó svo til að það hefur ekki verið gert. Við þeim grundvallarspurningum sem bornar hafa verið upp — og ég ætla aðeins að halda mig við eignaformið — hafa engin svör borist. Að vísu kemur fram í nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar að það sé munur á t.d. forminu við Háskólann í Reykjavík sem nú er rekinn sem sjálfseignarstofnun og svo við hinn nýja háskóla sem þarna eigi að reka. Þar eru þrír aðilar í stað eins og það er náttúrlega augljóst mál að þau rök eru eftirárök. Það eru engin rök fyrir því að einhver breyting verði á rekstrarforminu við það að þrír aðilar standi að þessu, enda er einn áfram langstærstur.

Svör við þessu hafa ekki borist nægjanleg til þess að hægt sé að skilja af hverju menn gera þessa tilraun. Það er búið að margfara yfir það í umræðum hvaða hættur geta verið þessu samfara. Það er hins vegar ljóst, og við hljótum að draga þá ályktun meðan það er ekki hrakið — ég hef sagt það áður — að það er eðlilegt að þeir aðilar sem koma að þessum rekstri, þeir sem þekkja hlutafélagaformið vel, hafi áhuga á því að noti það við rekstur skólans. Það er mjög eðlilegt. Hins vegar sýnist mér í þessu ferli skorta á að leiðbeiningar hafi komið úr menntamálaráðuneytinu varðandi það hvaða hefðir ríkja við rekstur háskóla. Háskólar eru ekki eins og hvert annað venjulegt fyrirtæki úti í bæ. Þess vegna ætla ég ekki að spyrja hv. þingmann nokkurrar spurningar heldur eingöngu ítreka það að þrátt fyrir margendurteknar yfirlýsingar um það að svör hafi borist (Forseti hringir.) hafa svörin ekki borist.