131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[15:11]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það væri fróðlegt að fara nánar við betra tækifæri yfir þessar tölur sem ég hef ákveðnar efasemdir um vegna þess að þegar menn telja fram rannsóknarfé þá er það gert á margvíslegan hátt en það er umræða sem bíður betri tíma.

Ég er ekki hræddur við tengsl við atvinnulífið, milli rannsóknarstofnana eða háskóla og atvinnulífsins, síður en svo. Ég vil hins vegar hafa það í farvegi sem gagnast samfélaginu og atvinnulífinu sem allra best. Ég var að reyna að færa rök fyrir máli mínu og þá með tilliti til mikilvægis grunnrannsókna á vegum hins opinbera. Ég var að vara við þeim skammtímasjónarmiðum sem óhjákvæmilega eru ráðandi hjá fyrirtækjum sem þurfa að hrærast í dagsins önn. Það er umræða sem fram fer í Bandaríkjunum og víðar. Nýlega var birt skýrsla þar sem aðilar úr atvinnulífinu bentu á að menn hefðu gengið á þá þekkingarsjóði sem það fyrirkomulag (Forseti hringir.) sem rannsóknir hafa búið við hafa skapað vegna þeirra skammtímasjónarmiða (Forseti hringir.) sem verið er að innleiða hér eins og vestan hafs.

(Forseti (SP): Forseti vekur athygli á því að hv. þingmenn hafa skemmri ræðutíma þegar svo margir veita andsvar.)