131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[15:12]

Frsm. 1. minni hluta menntmn. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vildi inna hæstv. ráðherra eftir einu. Það kom skýrt fram í umræðum á Alþingi í fyrra að ekki væri í vændum stefnubreyting að því er varðar gjaldtöku á grunnnám á háskólastigi. Nú er verið að taka út eina tiltekna grein og setja hana inn í einkarekinn skóla gegn skólagjöldum. Hvernig verður brugðist við því? Markar þetta tímamót er varðar gjaldtöku á grunnnám á háskólastigi? Verða viðbrögðin þau að koma á laggirnar tækninámi við annan opinberan skóla til að tryggja valfrelsi og jafnrétti til náms í tækninámsgreinum? Eða markar þetta þau skil að skólagjaldavæða eigi grunnnám á háskólastigi almennt og þá sérstaklega í ljósi þess sem fram kom í ræðu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar að lántaka nemenda fyrir skólagjöldum í gegnum Lánasjóð íslenskra námsmanna er að hálfu leyti niðurgreidd af ríkinu og því hægt að færa sannfærandi rök fyrir því að nemendagreiðslur hins opinbera til hinna einkareknu skóla séu þar af leiðandi töluvert hærri en til opinberu skólanna? Verður opinberu skólunum bættur þessi munur að einhverju leyti?

Það eru þessar þrjár spurningar: Markar þetta skil er varðar skólagjaldtöku á grunnnám á háskólastigi, verður hún almenn og í opinberu skólunum? Hvernig verður með framlögin í gegnum LÍN, verður opinberu skólunum bættur þessi munur að sama marki? Verður valfrelsi og jafnrétti til tæknináms tryggt með því að koma á laggirnar námsgrein við opinbera skóla eins og Háskóla Íslands eða Iðnskólann í Reykjavík?