131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[15:14]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef svarað öllum þessum spurningum, m.a. við 2. umr., en það er ljóst að það þarf að ítreka þetta í annað, þriðja eða jafnvel fjórða sinn fyrir hv. þingmanni. Það er engin breyting á stefnu stjórnvalda varðandi skólagjöldin. Við erum ekki að fara að taka upp skólagjöld á grunnnám á Íslandi. Ég vil hins vegar undirstrika þann samanburð þegar menn tala um að nú sé hinn nýi sameinaði háskóli byrjaður að taka skólagjöld á grunnnám og bent m.a. á Listaháskóla Íslands að það er sjálfseignarstofnun sem rekin er m.a. fyrir stuðning ríkisins. Við höfum ekki talað um að það sé neitt misrétti til náms eða ójafnrétti til náms hvað varðar listnámið. Þar eru borguð skólagjöld upp á 160–170 þúsund og það hefur engin umræða verið um að það hafi ógnað hinu svokallaða jafnrétti til náms. Stefna stjórnvalda í þessum málum er algerlega óbreytt, enda munum við taka umræðu um hana ef henni á að breyta. Það er alveg ljóst.