131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[15:24]

Dagný Jónsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við erum að ganga til atkvæða um að afnema lög um Tækniháskóla Íslands. Hér er einstakt tækifæri til að efla enn frekar menntun í landinu og ekki síst tæknifræðimenntun en fjölga þarf tæknifræðingum og það sýnir samanburður við Norðurlönd. Því ber að fagna sérstaklega áherslum hins nýja skóla að efla tæknifræðimenntun hér.

Afar ánægjulegt er að sjá hversu myndarlega atvinnulífið kemur að stofnun hins nýja sameiginlega háskóla og leggur það með honum 300 millj. kr. Þess má geta að fulltrúar nemenda Tækniháskóla Íslands hafa lýst sig fylgjandi þessari sameiningu og þeim finnst verklag Háskólans í Reykjavík passa vel við væntingar þeirra um námið. 82% nemenda í báðum skólum telja að áhrif sameiningarinnar hafi jákvæð áhrif á námsframboð og 93% þeirra eru þeirrar skoðunar að hinn nýi skóli verði meira áberandi í þjóðfélagsumræðunni. Þetta er gott veganesti fyrir hinn nýja skóla.

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu framfaraskrefi og ber fullt traust til stjórnenda skólans og veit að það starf sem mun fara fram í skólanum verður forsenda framþróunar og aukinnar samkeppnishæfni í atvinnulífi hér á landi. Það hefur verið sorglegt að horfa upp á málefnafátækt hv. stjórnarandstöðu og þá sérstaklega Samfylkingarinnar í málinu. Tortryggni þeirra gagnvart forsvarsmönnum hins nýja skóla hefur einkennt þeirra umræðu.

Að lokum vil ég óska hinum nýja skóla velfarnaðar í framtíðinni og vona að gæfan fylgi nemendum og starfsfólki.