131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[15:29]

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvort ég er einn um að halda að Sjálfstæðisflokkurinn og margir framsóknarráðherrarnir með hæstv. forsætisráðherra og hæstv. iðnaðarráðherra í broddi fylkingar trúi því að hlutafélagsformið sé frá guði komið. (Gripið fram í: Frá hverjum?) (Gripið fram í: Frá guði.) Þetta frumvarp (Gripið fram í.) sem við erum að greiða atkvæði um opnar á skólagjöld fyrir almennt háskólanám. Þetta frumvarp opnar á og ýtir undir hlutafélagavæðingu æðri menntunar á Íslandi. Þetta frumvarp fjallar um ráðstöfun opinberra fjármuna, skattpeninga.

Það sem kemur mér á óvart er hve smá í hugsun ríkisstjórnin er. Hún er tilbúin í krafti samkeppniskreddu að stuðla að hokurbúskap í stað þess að stofna til myndarlegrar samvinnu og samvinnubúskapar sem við höfum rekið í opinberum háskólum á Íslandi, sem standast samkeppni við útlönd. (Gripið fram í.) Þetta væri allt í góðu lagi — nú hlær hæstv. forsætisráðherra og gerir lítið úr samyrkjubúskap og samvinnuhugsjóninni. Það kemur mér reyndar ekki á óvart.

En staðreyndin er sú að allt væri þetta góðra gjalda vert ef þessar stofnanir fengju allar nægilega fjármuni til ráðstöfunar. En þeim er öllum haldið í spennitreyju og það er þess vegna sem ég tala um hokurbúskap. Við eigum að standa myndarlega að háskólanámi á Íslandi til að við stöndumst alþjóðlega samkeppni.

Hæstv. forseti. Það sem kemur mér mest á óvart og ég held að hljóti að undra marga stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins, er hve lélegir bisnessmenn þeir eru, hve lélegir hagsmunagæslumenn þeir eru fyrir íslenska skattborgara.