131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Norrænt samstarf 2004.

550. mál
[15:59]

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þessa skýrslu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs um norrænt samstarf árið 2004 en tel mér þó skylt, úr því að ég á sæti í Íslandsdeildinni, að taka stuttlega þátt í þessari umræðu og gera grein fyrir störfum mínum innan deildarinnar.

Eins og fram kom hjá hv. þm. Drífu Hjartardóttur átti ég sæti í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd Norðurlandaráðs, var þar varaformaður fram að síðustu áramótum en sat jafnframt í svokallaðri eftirlitsnefnd Norðurlandaráðs. Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir hefur í sjálfu sér gert grein fyrir störfum umhverfis- og náttúruauðlindanefndarinnar á árinu 2004 og ég ætla ekki að fara að endurtaka það sem þar kom fram. Ég verð þó að segja að í þessari nefnd eru ekki mjög mörg mál sem varða hagsmuni Íslands og nú þegar ég hef vikið sæti úr henni og tekið sæti í svokallaðri borgara- og neytendanefnd verð ég að segja að ég hefði viljað sjá nefndina taka kannski nánar á hagsmunamálum sem varða okkur Íslendinga meira. Í sjálfu sér hefur verið gerð gangskör að því. Eins og fram hefur komið kom nefndin á starfsárinu á fót vinnuhópi til að skipuleggja ráðstefnu um framtíðarhorfur strandveiða á Norðurlöndum. Það er kannski það atriði sem heyrir undir umhverfis- og náttúruauðlindamál sem skiptir okkur Íslendinga mestu máli í þessu sambandi.

Á vettvangi þessarar nefndar og á vettvangi Íslandsdeildar á síðasta Norðurlandaráðsþingi sem haldið var ítrekaði ég þau sjónarmið sem ég hef áður komið fram með, þ.e. ég fór yfir rétt strandríkja til þess að nýta með sjálfbærum hætti þær náttúruauðlindir sem eru við þetta land, þá sérstaklega hvalveiðar, fór yfir þann tvískinnung sem fram hefur komið í stefnu sérstaklega sænsku ríkisstjórnarinnar og Svía hvað varðar sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda. Svíar telja sig þess umkomna að veiða dádýr og elg, sem eru spendýr eins og hvalirnir, og telja það hið eðlilegasta mál en rísa síðan upp á afturlappirnar þegar við Íslendingar kjósum að nýta náttúruauðlindir okkar og veiða spendýr sem eru við okkar strendur og í okkar fiskveiðilögsögu. Það verður ekki annað sagt en að a.m.k. Grænlendingar og Færeyingar hafi tekið undir þessi sjónarmið okkar Íslendinga til þessa máls. Eftir því sem oftar er á það minnst vekur það meiri og meiri eftirtekt á Norðurlöndum, einkum í þessum tveimur löndum.

Eins og ég sagði, herra forseti, átti ég einnig sæti í eftirlitsnefnd Norðurlandaráðs og sit þar enn þá en nefndin fylgist fyrir hönd Norðurlandaráðsþingsins með starfsemi sem fjármögnuð er úr sameiginlegum sjóðum Norðurlandanna og hefur haft umsjón með málefnum sem snerta túlkun samninga um norræna samvinnu, vinnutilhögun Norðurlandaráðs og önnur innri málefni. Ég hygg að í sjálfu sér kalli ekkert sem fram kom í störfum þessarar nefndar á efnislega umfjöllun hér. Nefndin fundaði nokkuð reglulega og ágætlega og vel að mínu mati og ég get ekki betur séð en að haldið sé ágætlega utan um þá fjármuni sem til þessa samstarfs renna og að þeir renni þangað sem þeim er ætlað að fara.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa frekari orð um þessa skýrslu, hún er ítarleg og vönduð og segir í rauninni allt sem segja þarf.