131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

ÖSE-þingið 2004.

544. mál
[16:05]

Frsm. ÍÖSE (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir skýrslu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins fyrir árið 2004, sem er á þskj. 823.

Áður en ég hef mál mitt vil ég undirstrika skýran greinarmun á annars vegar Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE, og ÖSE-þinginu hins vegar. ÖSE er alþjóðastofnun sem starfar á grundvelli Helsinki-sáttmálans frá árinu 1975 og er ætlað að stuðla að friðar- og öryggissamvinnu aðildarríkjanna 55. Líkt og gildir um aðrar alþjóða- og milliríkjastofnanir fer starfsemi ÖSE fram í umboði ríkisstjórna aðildarríkjanna. ÖSE-þingið starfar á hinn bóginn í umboði þjóðþinga aðildarríkjanna og þar koma saman yfir 300 þjóðkjörnir þingmenn. Jafnvel þótt samskipti ÖSE-þingsins við ÖSE séu mikil eru formlegu tengslin lítil en hafa þó farið vaxandi.

Af störfum Íslandsdeildar ber hæst stofnun sérstakrar nefndar ÖSE-þingsins sem hafa skal eftirlit með fjármálum ÖSE. Þessi nefnd var sett á laggirnar eftir að tillaga sem ég lagði fram var samþykkt einróma á ársfundi þingsins í Edinborg og var nefndin skipuð á haustmánuðum í umboði forseta ÖSE-þingsins. Er ég einn af fjórum þingmönnum sem skipa nefndina. Hinir þrír eru frá Hollandi, Kanada og Slóveníu. Eru vonir bundnar við að þannig hljóti þjóðkjörnir þingmenn sem sitja á ÖSE-þinginu aukið hlutverk við að hafa eftirlit með hvernig skattfé þjóðanna er varið í samræmi við eftirlitsskyldu þeirra með fjármálum framkvæmdarvaldsins heima fyrir, svona svipað og fjárlaganefnd í þinginu hér og annars staðar. Er starf nefndarinnar þegar hafið og má greina mikinn metnað og kraft í því starfi sem þar fer fram. Starfshættir ráðherraráðsins, yfirstjórnar ÖSE, sem grundvallast á samstöðureglunni svonefndu eru það lokaðir í eðli sínu að ÖSE-þinginu hefur reynst örðugt að fá nægar upplýsingar til að draga eigin ályktanir af starfinu. Er það mál manna að rík nauðsyn sé til að ÖSE geri bragarbót á fjármálum sínum og að heildrænt eftirlit þjóðþinganna sé nauðsynlegt til að efla gagnsæi og góða stjórnsýslu stofnunarinnar.

Herra forseti. Íslandsdeild ÖSE-þingsins var þannig skipuð 2004 að aðalmenn voru hv. þm. Dagný Jónsdóttir, varaformaður, Jóhanna Sigurðardóttir og ég sem formaður. Varamenn voru hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, Hjálmar Árnason og Ásta R. Jóhannesdóttir. Andri Lúthersson var ritari Íslandsdeildarinnar.

Fulltrúar Íslandsdeildar sóttu auk ritara alla þrjá helstu fundi ÖSE-þingsins á árinu. Við hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sóttum vetrarfundina í Vínarborg í febrúarmánuði og öll deildin sótti ársfundinn sem haldinn var í Edinborg að þessu sinni. Þá sótti ég fund stjórnarnefndarinnar á eynni Ródos.

Herra forseti. ÖSE-þingið hefur starfað í núverandi mynd frá árinu 1992 er fyrsti ársfundurinn fór fram í Búkarest. Á þeim fundi var ákveðið að stofna skrifstofu ÖSE-þingsins sem staðsett er í Kaupmannahöfn. Samskipti ÖSE og ÖSE-þingsins eru helst í því formi að helstu forsvarsmenn ÖSE ávarpa þingfundi og nefndarfundi og svara spurningum þingmanna. Þá eru ályktanir ársfundar ÖSE-þingsins lagðar fyrir stofnunina og þeim svarað af hálfu framkvæmdarvaldsins. Nýlega var byrjað að leggja fjárhagsáætlun ÖSE fyrir ÖSE-þingið til að bæta samskiptin og auka gagnsæið. Með stofnun áðurnefndrar sérnefndar um fjármál ÖSE er búist við að eftirlitshlutverk ÖSE-þingsins og áhrif þess muni aukast. Það gæti falist í mati á fyrirhugðum fjárveitingum til einstakra verkefna, framkvæmd ályktana ÖSE-þingsins, skýrari og auðskiljanlegri reikningsskilum og eftirliti með fjárveitingum sem þegar hefur verið ráðstafað. Þetta getur orðið mjög veigamikið verkefni því að við erum jú að tala um skattfé borgara allra landanna 55.

Í ársskýrslunni er greinargóð lýsing á uppbyggingu ÖSE og verður ekki farið nánar út í það hér en þó vil ég nefna mikilvægustu atriðin í starfi stofnunarinnar.

Mikilvægasti þátturinn í starfsemi ÖSE eru starfsstöðvar á vettvangi og hefur sá þáttur skilað miklum árangri, sérstaklega á síðustu fimm árum. Fulltrúar ÖSE á vettvangi starfa náið með valdhöfum í þeim ríkjum og héruðum þar sem starfið fer fram og liðsinna við að efla innviði lýðræðis og mannréttinda auk annarra þátta. Starfið á vettvangi er mjög viðamikið og starfa þar um 3 þús. manns að jafnaði. Þess ber að geta að aðeins fáir þessara fulltrúa eru kostaðir beint af ÖSE. Langflestir eru starfsmenn aðildarríkjanna sem sendir eru á vettvang og starfa í nafni ÖSE. Þannig hafa til að mynda fjölmargir Íslendingar starfað að uppbyggingu á fyrrum átakasvæðum.

Starfsstöðvar ÖSE á vettvangi eru 18 talsins og undanfarin ár hefur ÖSE einsett sér að styrkja störf stofnunarinnar á vettvangi og er það í takt við þær áherslur sem komið hafa ítrekað fram hjá ÖSE-þinginu.

Átökin á Balkanskaga á 10. áratug síðustu aldar urðu til þess að ÖSE fékk viðamikið hlutverk við uppbyggingarstarf. Vegur og virðing stofnunarinnar jókst í kjölfarið sem og umsvifin. Á síðustu árum hefur ÖSE lagt lóð sitt á vogarskálarnar til að slökkva þá ófriðarelda sem blossað hafa upp á svæðinu. Vegna breyttrar stöðu í alþjóðamálum hafa áherslur ÖSE þó beinst í auknum mæli í austurveg. Kákasuslýðveldin og Mið-Asíuríkin hafa átt gott samstarf við ÖSE á síðustu árum og er ljóst að mun meiri pólitísk vigt hefur verið lögð í að aðstoða ríkin á þessum landsvæðum. Þrátt fyrir það hefur ÖSE enn ríkar skuldbindingar í suðausturhluta Evrópu við framkvæmd Dayton-samkomulagsins í Bosníu og Hersegóvínu, friðargæsluverkefni í Kosovo-héraði, uppbyggingarverkefni í Serbíu og Svartfjallalandi, auk þróunarverkefna í öðrum ríkjum á svæðinu. Á þessum stöðum hefur stofnuninni verið falið að hafa umsjón með framkvæmd kosninga, fylgjast með mannréttindamálum, hindra mansal, byggja upp réttarkerfi og frjálsa fjölmiðlun og aðstoða við gerð samninga um traustvekjandi aðgerðir og takmörkun vígbúnaðar.

Kosningaeftirlit bar að venju hæst í starfi ÖSE á árinu, t.d. forsetakosningarnar í Úkraínu og farsæl niðurstaða þeirra. Á þessum vettvangi hefur ÖSE-þingið látið æ meira til sín taka og er nú svo komið að kjölfestan í öllu kosningaeftirliti stofnunarinnar er þingmenn sem ÖSE-þingið lætur í té. Forsvarsmenn kosningaeftirlitsins á hverjum stað eru alla jafna úr röðum fulltrúa ÖSE-þingsins þar sem safnast hefur saman mikil þekking og reynsla á þessu sviði.

Alþjóðleg barátta gegn hryðjuverkastarfsemi hefur mótað nokkuð starf ÖSE á undanförnum árum enda fer mikilvæg alþjóðasamvinna á sviði til að mynda löggæslumála fram undir væng stofnunarinnar. Þá hefur ÖSE reynst afar mikilvægur samráðsvettvangur fyrir mörg málefni, m.a. baráttu gegn mansali og smygli á eiturlyfjum og vopnum. Helsti styrkur ÖSE felst í fjölda aðildarríkjanna, tengingunni yfir Atlantshafið og austur til Mið-Asíu. Er stofnunin því breiður samráðs- og samvinnuvettvangur ólíkra ríkja sem sett hafa sér sömu markmið.

ÖSE-þingið starfar aðallega í þremur nefndum sem fjalla um stjórnmál og öryggismál, efnahags- og umhverfismál og lýðræðis- og mannréttindamál. Þetta nefndastarf endurspeglar hinar þrjár víddir ÖSE. Að auki er ÖSE-þingið aflvaki fyrir breytingar á áherslum ÖSE og veitir einnig stofnuninni óformlegan pólitískan stuðning með ályktunum og því um líku.

Herra forseti. Fulltrúar ÖSE-þingsins, sem eru þjóðkjörnir fulltrúar þjóðþinganna, hafa verið ötulir talsmenn starfsemi stofnunarinnar heima fyrir og hefur sá stuðningur verið stofnuninni mikilvægur. Tengsl ÖSE-þingsins og ÖSE hafa þó þótt frekar fátækleg en núna virðist vera vilji til að bæta þessi tengsl þannig að ályktanir ÖSE-þingsins rati inn á borð ráðherraráðsins og fastaráðs ÖSE og hljóti þar umfjöllun.

Auk hefðbundinna nefndastarfa ÖSE-þingsins eru starfræktar ýmsar sérnefndir sem eru ráðgefandi í tilteknum málum sem varða stöðuna í Moldavíu, stjórnmálaástandið í Úkraínu, jafnréttismál og fjármál ÖSE svo að nokkur dæmi séu nefnd. Oftar en ekki hefur starf þessara sérnefnda skilað miklum árangri við að fá deiluaðila að samningsborðinu og við að upplýsa mál og kynna fyrir almenningi.

Að lokum þakka ég fulltrúum Íslandsdeildar fyrir gott samstarf á árinu.