131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

VES-þingið 2004.

545. mál
[16:18]

Frsm. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég fylgi eftir skýrslu Íslandsdeildar VES-þingsins fyrir árið 2004 sem formaður Íslandsdeildarinnar. VES-þingið kemur saman tvisvar á ári til reglulegs þingfundar. Á milli funda koma nefndir þingsins saman nokkrum sinnum á ári. Við höfum ekki tekið þátt í því nefndarstarfi en við höfum áheyrnaraðild að þinginu.

Ég mun í máli mínu fyrst og fremst styðjast við skýrsluna sem er nokkuð ítarleg um þær umræður og sjónarmið sem fram komu á þinginu, annars vegar dagana 2.–4. júní og síðan síðar á síðasta ári, þ.e. dagana 28. nóvember til 1. desember þegar seinni hluti 50. fundar VES-þingsins var haldinn. Hyggst ég stikla hér á stóru.

Eins og fyrr segir var fyrri hluti fundarins haldinn dagana 2.–4. júní. Þann fund sóttu af hálfu Íslandsdeildar Bjarni Benediktsson, Guðjón Hjörleifsson og Bryndís Hlöðversdóttir, auk Andra Lútherssonar ritara. Á þessu þingi voru umræður um sameiginlega öryggis- og varnarstefnu ESB í kjölfar stækkunar Evrópusambandsins áberandi sem og umræður um þinglegt eftirlit með öryggis- og varnarstefnu ESB og Evrópusamvinna um upplýsingagjöf til almennings um öryggis- og varnarmál álfunnar. Auk þess var rætt um skýrslu um stöðuna í öryggis- og varnarmálum Eystrasaltsríkjanna þriggja og fjallað um hættur á árásum með kjarna-, efna- og lífefnavopnum.

Nokkuð bar á umræðum um stjórnarskrárdrög ESB og spurninguna um hvernig öryggis- og varnarmálaþátturinn yrði meðhöndlaður í sáttmálanum en eins og fram hefur komið fór þessi hluti þingsins fram í júnímánuði á síðasta ári.

Það sem ég vildi kannski helst minnast á sem markvert var á þinginu er að í upphafi þingfundar hélt Decker, forseti VES-þingsins, ræðu þar sem hann ítrekaði nauðsyn þess að komið yrði á fót alþjóðlegu þingmannasamstarfi innan ESB með það að markmiði að þinglegt eftirlit yrði haft með öryggis- og varnarmálastefnu ESB og þannig komið í veg fyrir það sem menn hafa kallað lýðræðishallann í þessum málaflokki. Það verður að segjast eins og er að þetta málefni hefur verið mjög fyrirferðarmikið á þeim VES-þingum sem ég hef sótt. Jafnframt verður að segjast eins og er að öll störf þingsins mótast dálítið af þeirri óvissu sem er um framtíð þingsins.

Decker hefur verið ötull talsmaður þess að þjóðþingum ESB-ríkjanna bæri að hafa eftirlit með öryggis- og varnarmálastefnu ESB. Hann hefur mælt fyrir því að komið yrði á fót slíkri samkundu og hefur talið í því samhengi að slík samkunda gæti verið að fyrirmynd VES-þingsins eða í ætt við það. Á þinginu flutti Peter Struck, varnarmálaráðherra Þýskalands, ávarp og aðspurður taldi hann að VES-þingið mundi starfa í 3–4 ár til viðbótar í núverandi mynd. Að þeim tíma liðnum, mátti heyra á máli hans, yrðu komnar fram breytingar á störfum þingsins.

Í skýrslunni sem hér liggur frammi er farið allítarlega yfir þær umræður sem fóru fram á þessum fyrri hluta VES-þingsins. Ég sé ekki ástæðu til að fara nákvæmlega yfir þær hér en ætla þó að minnast á það að á þessum fyrri hluta 50. fundarins var fjallað um málefni Íraks og í ályktun þingsins sem samþykkt var samhljóða voru ríkisstjórnir hvattar til að styðja almennar þingkosningar í landinu með það fyrir augum að valdaafsal til innlendra stjórnvalda gæti farið fram sem fyrst. Þá ályktaði þingið jafnframt í þá veru að rík nauðsyn væri á að tryggja áframhaldandi veru alþjóðlega friðargæsluliðsins í Írak og enn fremur að Sameinuðu þjóðirnar yrðu að gegna lykilhlutverki við hið pólitíska umbreytingaferli sem nú ætti sér stað í landinu.

Síðari hluti fundarins fór fram 29. nóvember til 1. desember og þann fund sóttu af hálfu Íslandsdeildar Bjarni Benediktsson, Guðjón Hjörleifsson og Helgi Hjörvar, í forföllum Bryndísar Hlöðversdóttur aðalmanns og Þórunnar Sveinbjarnardóttur varamanns, auk Andra Lútherssonar ritara. Helstu skýrslur sem fyrir þinginu lágu að þessu sinni fjölluðu um evrópsk öryggis- og varnarmál 50 árum eftir undirritun endurskoðaða Brussel-sáttmálans, samskipti Bandaríkjanna og Evrópu á sviði öryggis- og varnarmála, samvinnu Bandaríkjanna og Evrópu á sviði hergagnaframleiðslu, og stöðu mála í Úkraínu. Belgíski þingmaðurinn Stef Goris var kjörinn nýr forseti VES-þingsins en Lúxemborgarinn Marcel Glesener hafði gegnt embættinu eftir að Belginn Armand de Decker lét af þingmennsku í sumar og gerðist ráðherra í ríkisstjórn Belgíu.

Í upphafi þingfundar hélt fráfarandi starfandi forseti ræðu um starfsemi þingsins og helstu málefni sem fyrir því lægju. Í ræðunni ræddi Glesener um niðurstöður Evrópuþingskosninganna í maí sl. og nefndi að nú um stundir væru 10 ný ríki fullir þátttakendur í Evrópusamstarfi, þar með talið öryggis- og varnarsamstarfi Evrópusambandsins og stjórnmála- og öryggismálanefnd sambandsins, þar sem undirbúningur sameiginlegrar stefnu í öryggis- og varnarmálum færi fram. Á það bæri þó að minna að það væru enn þjóðþing aðildarríkjanna sem sinntu lýðræðislegu eftirliti með þeim ákvörðunum sem stjórnvöld tækju, ákvörðunum sem að mestu leyti væru háðar samstöðu allra ESB-ríkjanna. Í því ljósi væri nauðsyn á að árétta það að afar mikilvægt væri að fulltrúum þjóðþinganna sem á VES-þinginu sætu yrði gert auðveldara að fjalla um málefni Evrópustefnunnar í öryggis- og varnarmálum. Þess vegna hefði verið ákveðið að veita nýju aðildarríkjunum atkvæðisrétt á VES-þinginu, jafnvel þótt ráðherraráð VES hefði tekið þá ákvörðun að ekki væru ástæður fyrir þau að gerast fullir aðilar að VES. Þarna endurspeglast enn og aftur sú umræða um þennan umræðuvettvang fyrir lýðræðislega kjörna fulltrúa til að hafa eftirlit og veita þessum málaflokki aðhald.

Hinn nýkjörni forseti þingsins, Stef Goris, kom inn á þessi sömu mál í ræðu sinni og lagði áherslu á að menn ættu að gleðjast yfir því að nú væri kominn meiri stöðugleiki um tilvist þingsins í kjölfar undirritunar stjórnarskrárinnar og menn ættu að horfa til þess verkefnis til framtíðar að upplýsa ráðamenn í Evrópu um það mikilvæga starf sem fram færi undir merkjum VES-þingsins og að tilvist þess væri einkar mikilvæg fyrir lýðræðislega umræðu um öryggis- og varnarmál í álfunni.

Einn þeirra sem tók til máls á þessum síðari hluta þingsins var Luc Frieden, varnarmálaráðherra Lúxemborgar. Mér finnst rétt að minnast á að í ræðu sinni vék hann að þeim friðargæsluverkefnum sem ESB hefði tekið að sér á undanförnum árum og missirum, bæði á Balkanskaga, í Afríkuríkinu Kongó og nú síðast í Kákasusríkinu Georgíu. Hann færði íslenskum, norskum, búlgörskum, rúmenskum og tyrkneskum stjórnvöldum sérstakar þakkir fyrir framlag þeirra til þeirra verkefna sem enn væri unnið að.

Ég ætla að lokum að minnast á það að af þeim skýrslum og ályktunum sem ræddar voru á desemberþinginu kom fram í skýrslu gríska þingmannsins Elsu Papadimitriou um nýjar ógnir í öryggiskerfi Atlantshafsríkja að brýnt væri að Evrópuríkin og Bandaríkin ættu opinskáar viðræður á víðfeðmum vettvangi um stríðið í Írak, málefni Miðausturlanda, stöðu aðgerðanna í Afganistan, gereyðingarvopn í Íran og fleira. Það má segja að umræðan um samskiptin yfir Atlantshafið, framtíð þingsins og hvernig tryggja megi lýðræðislegt eftirlit með varnar- og öryggismálastefnu ESB, mikilvægi þess að Evrópuríkin eigi sér sameiginlegan umræðuvettvang til að koma saman og ræða þessi mál, hafi verið mjög áberandi á þinginu á síðasta ári. Þessi sama umræða hefur verið áberandi hingað til en það er vonandi rétt sem haldið var fram á fundinum og ég hef áður minnst á að framtíð VES-þingsins sé að skýrast betur en verið hefur og að heldur skýrari sýn komist á hlutverk þingsins til framtíðar litið.

Ég held að ég láti þetta nægja um skýrslu Íslandsdeildar VES-þingsins fyrir árið 2004.