131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Evrópuráðsþingið 2004.

546. mál
[16:31]

Frsm. (Sólveig Pétursdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Á þskj. 825 liggur fyrir skýrsla frá Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins fyrir árið 2004 og vil ég fylgja skýrslunni úr hlaði með nokkrum orðum.

Allt frá lokum kalda stríðsins hefur Evrópuráðið í Strassborg gegnt því veigamikla hlutverki að styðja við bakið á lýðræðisuppbyggingu í nýfrjálsum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu, m.a. með efnahags-, laga-, stjórnsýslu- og tækniaðstoð og kosningaeftirliti. Aðildarríkjum ráðsins hefur fjölgað ört á þeim 15 árum sem liðin eru síðan Berlínarmúrinn féll og á árinu 2004 náði stofnunin þeim merka áfanga að aðildarríkin urðu fjörutíu og sex talsins þegar Mónakó hlaut formlega aðild. Segja má að ríki Evrópuráðsins myndi nú eina órofa pólitíska heild, að aðeins Hvíta-Rússlandi einu undanskildu, og með vaxandi verkefnum og skuldbindingum aðildarríkja og auknum umsvifum er óhætt að segja að vægi ráðsins hefur aukist verulega. Framtíð Evrópuráðsins sjálfs var mjög til umræðu á árinu enda hafði verið ákveðið að efna til þriðja leiðtogafundar Evrópuráðsins í Póllandi um mitt ár 2005. Efni fundarins var mjög í deiglunni og í lok árs var mikill samhljómur um að efni og ástæður væru til að helga fundinn framtíð Evrópuráðsins í nýrri stofnanaskipan Evrópu annars vegar og hins vegar hvernig efla mætti innra starf stofnunarinnar og veita henni skýra pólitíska framtíðarsýn.

Á sama tíma og Evrópuráðið hefur eflst hafa aðrar evrópskar fjölþjóðastofnanir gert hið sama og er þá einkum átt við Evrópusambandið og ÖSE, þ.e. Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu. Að mörgu leyti starfa þessar þrjár stofnanir á svipuðum slóðum, ekki bara landfræðilega, heldur einnig ef litið er til málaflokkanna lýðræðis, mannréttinda og réttarríkisins. Í þessu samhengi hefur Evrópusambandið þó að sjálfsögðu nokkra sérstöðu enda um mun dýpra og víðtækara milliríkjasamstarf þar að ræða.

Evrópuráðið er hins vegar í raun eina samevrópska stofnunin sem hefur svo mörg Evrópuríki innanborðs frá vestri til austurs. Þessi staðreynd gerir það að verkum að Evrópuráðið er í ákjósanlegri stöðu til að ná árangri við framrás grundvallargilda sinna — lýðræðið, mannréttindi og réttarríkið — í gegnum sáttmálasafn stofnunarinnar og sérfræðistofnanir þess. Á það hefur einnig verið bent að Evrópuráðið sé hinn eðlilegi samstarfsaðili Evrópusambandsins og í því ljósi bæri ESB að nýta sérfræðiþekkingu og sérfræðistofnanir Evrópuráðsins mun betur en gert hefði verið til þessa.

Hæstv. forseti. Starfsemi Evrópuráðsþingsins var víðfeðm á árinu og málaflokkarnir sem til umræðu voru bæði á þinginu og í nefndum þess fjölmargir. Sem endranær voru það pólitísku málin, átök og milliríkjadeilur, sem mesta athygli fönguðu á þingfundum og af þeim málum má nefna t.d. aðdraganda stríðsins í Írak og uppbyggingarstarfið þar í landi, sambúð Bandaríkjanna og Evrópu, deilurnar fyrir botni Miðjarðarhafs, lýðræðisþróunina í Georgíu, forsetakosningar í Úkraínu, baráttuna gegn hryðjuverkastarfsemi og framtíðarhlutverk Sameinuðu þjóðanna. Er þetta þó aðeins brot af þeim málum sem mikla athygli hlutu á þingfundum Evrópuráðsins. Íslandsdeildin tók þátt í flestum þessara umræðna, auk margra annarra, og var afar virk í störfum þingsins.

Það má geta þess að nýr framkvæmdastjóri Evrópuráðsins var kjörinn á júnífundi þingsins og hlaut breski þingmaðurinn Terry Davis flest atkvæði og sigraði fráfarandi framkvæmdastjóra Austurríkismanninn Walter Schwimmer, og utanríkisráðherra Eistlands, Kristinu Ojuland. Þá tók nýr íslenskur dómari sæti í Mannréttindadómstól Evrópu en dómarar eru, líkt og framkvæmdastjórar stofnunarinnar, kosnir af Evrópuráðsþinginu.

Hæstv. forseti. Á þingfundum eru skýrslur málefnanefnda ræddar og ályktað á grundvelli þeirra. Ályktunum, tilmælum eða áliti er því næst vísað til ráðherranefndarinnar sem fjallar um þær og framkvæmir til samræmis við þær ef þurfa þykir, annaðhvort með beinum aðgerðum eða lagasetningum í þjóðþingum. Evrópuráðsþingið á því oft frumkvæði að samningu fjölþjóðlegra sáttmála sem eru lagalega bindandi fyrir aðildarríkin. Þá er Evrópuráðsþingið umræðuvettvangur fyrir stjórnmál, efnahagsmál, félagsmál, mannréttindamál, umhverfismál, menningar- og menntamál, og eina samevrópska fjölþjóðastofnunin þar sem þingmenn Vestur-, Mið- og Austur-Evrópu starfa saman á jafnréttisgrundvelli.

Sérstök áhersla er lögð á að ólíkt því sem tíðkast á Evrópuþinginu eru fulltrúar á Evrópuráðsþinginu þjóðkjörnir þingmenn og hafa störf þingsins því beina skírskotun til starfa þjóðþinganna sjálfra. Þingfundir Evrópuráðsþingsins, þar sem menn starfa saman á jafnræðisgrundvelli, bera saman bækur sínar og skiptast á hugmyndum, eru því afar mikilvægir. Er það samdóma álit að þetta farsæla samstarf hafi hraðað mjög þeirri öru lýðræðisþróun sem átt hefur sér stað í Mið- og Austur-Evrópu á undangengnum árum. Þá hefur reynslan sýnt að þjóðir sem hafa skýr markmið í störfum sínum innan þingsins og kappkosta við að ná þeim geta haft áhrif langt umfram stærð og pólitískt bolmagn. Sú staðreynd varpar skýru ljósi á mikilvægi, og ekki síður möguleika, Evrópuráðsþingsins fyrir íslenska hagsmuni, ekki síst í ljósi þess að Evrópuráðið og þingmannasamkunda þess er eina samevrópska fjölþjóðastofnunin þar sem Ísland nýtur fullrar aðildar.

Hæstv. forseti. Vil ég nú minnast stuttlega á skipan Íslandsdeildarinnar. Fram til 1. október 2004 voru aðalmenn Íslandsdeildar Sólveig Pétursdóttir, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Kristinn H. Gunnarsson, varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks, og Össur Skarphéðinsson, þingflokki Samfylkingarinnar. Varamenn voru Árni R. Árnason, þingflokki Sjálfstæðisflokks, en við andlát hans var Birgir Ármannsson skipaður í sætið, Birkir J. Jónsson, þingflokki Framsóknarflokks, og Margrét Frímannsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar. Við upphaf 131. löggjafarþings var kjörin ný Íslandsdeild. Þar kom Siv Friðleifsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, inn í stað Kristins H. Gunnarssonar og var kjörin varaformaður. Aðrar breytingar urðu ekki. Ritari Íslandsdeildarinnar var og er Andri Lúthersson.

Vil ég nota tækifærið og segja frá því að jafnréttisnefnd Evrópuráðsþingsins hefur þegið boð Íslandsdeildarinnar um að halda fund sinn hér á landi næsta haust. Er ætlunin að nefndin skiptist á skoðunum við fulltrúa íslenskra stjórnvalda og félagasamtaka sem hafa jafnréttismál á sinni könnu. Er það í raun gleðiefni að svo mikill áhugi er hjá fulltrúum Evrópuráðsþingsins að koma hingað til lands og kynna sér þennan mikilvæga málaflokk og hvað áunnist hefur í jafnréttismálum hér á landi.

Hæstv. forseti. Ekki skal hér tíundað um einstaka fundi Evrópuráðsþingsins og er vísað til fyrirliggjandi ársskýrslu sem veitir greinargóða lýsingu á störfum þess og þátttöku Íslandsdeildar í mikilvægum málaflokkum. Vil ég hins vegar þakka Íslandsdeildarmönnum gott samstarf á þessum mikilvæga vettvangi sem og fastafulltrúa Íslands í Evrópuráðinu sem hefur verið þingmannanefndinni innan handar.