131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

NATO-þingið 2004.

571. mál
[16:40]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir ársskýrslu Íslandsdeildar NATO-þingsins 2004 og vil fylgja henni úr hlaði með örfáum orðum.

Umræðan um sambúð Bandaríkjanna og Evrópuríkja í kjölfar Íraksstríðsins var nokkuð hávær á árinu 2004, eins og raunar árið þar á undan, og setti að vissu leyti mark sitt á samskipti aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins. Þó virtist sem andstæðir pólar í Íraksmálinu hafi þokast nær hver öðrum eftir því sem á árið leið og í lok árs var svo komið að mun meiri samhljóms gætti meðal aðildarríkjanna en verið hafði um nokkurt skeið. Í árslok árs lögðu flestöll aðildarríki NATO eitthvað af mörkum til uppbyggingarstarfsins í Írak og áþreifanlegur árangur hafði náðst í að sætta deilur vegna ólíkra sjónarmiða beggja vegna Atlantshafsins hvað Íraksmálið varðaði, og þá einkanlega innrásina 2003. Vissulega hafði það jákvæð áhrif að nýkjörnum Bandaríkjaforseta og stjórn hans virtist það metnaðarmál að ná að lygna þær öldur sem mynduðust í aðdraganda Íraksstríðsins. Á hitt er þó einnig að líta í þessu samhengi að þær Evrópuþjóðir sem hvað harðast gengu fram í gagnrýni sinni á framgöngu Bandaríkjanna og Breta hafa líka virst fúsar á síðustu mánuðum til að slétta úr þeim ágreiningsefnum sem risið höfðu.

Hvað Atlantshafsbandalagið sjálft varðar horfir NATO nú fram á veginn, tekst á við ógnir samtímans og stendur nú að mörgu leyti styrkara en áður. Þrátt fyrir ólík stefnumið og pólitísk átök einstakra aðildarríkja liggur nú rík pólitísk eining að baki mikilvægs hlutverks bandalagsins við að leitast við að tryggja frið og stöðugleika í Evrópu og á nærliggjandi svæðum. Atburðir undanfarinna mánaða og missira staðfesta að innan bandalagsins ríkir ekki ótti við orðræðuna, menn takast á um álitaefni og komast að niðurstöðu án þess að missa sjónar á megintilganginum. Nýliðinn óformlegur leiðtogafundur bandalagsins í Brussel í síðasta mánuði undirstrikar það.

Með breyttri heimsmynd hefur bandalagið skerpt áhersluna á svæði utan Evrópu og þá einkanlega á því landsvæði sem í daglegu tali hefur verið nefnt Stór-Miðausturlönd. Er þar til að mynda almennt álitið að málefni Miðausturlanda muni fyrr eða síðar lenda með beinum hætti inni á borði hjá bandalaginu, hvort sem um friðargæslu eða annað verði að ræða, og ber hér að fagna því að friðvænlegar horfir nú um stundir í deilu Ísraels- og Palestínumanna en verið hefur um langan tíma.

Á leiðtogafundi NATO-ríkja í Istanbúl í júnímánuði var ákveðið að hrinda í framkvæmd áætlun sem miðaði að því að auka mjög samskiptin við ríkin við Persaflóa, á grundvelli Miðjarðarhafsáætlunarinnar sem gefist hefur einkar vel í samskiptum bandalagsins við ríki norðanverðrar Afríku. Um afar mikilvægt verkefni er að ræða enda almennt álitið að þetta heimssvæði sé mesta uppspretta hryðjuverkaafla nú um stundir. Friðaraðgerðir bandalagsins í Afganistan hafa þegar skilað miklum árangri og á vettvangi þess ríkir nú full einurð um það hversu mikilvægt er að lýðræði nái að skjóta þar varanlegum rótum undir verndarvæng bandalagsins og bandamanna þess.

Áframhald hefur verið á mikilvægu friðargæsluverkefni bandalagsins í Kosovo-héraði á árinu og farsæl tilfærsla verkefna í Bosníu-Hersegóvínu og Makedóníu er nú til marks um góð samskipti NATO og Evrópusambandsins. Þótt NATO hafi ekki verið aðili að Íraksstríðinu er vert að minnast þess að um það hefur náðst samstaða að NATO komi að þjálfun írakskra öryggissveita og að bandalagið útvegi þeim búnað.

Hvað innviði NATO varðar hefur orðið mikil uppstokkun á herstjórnarkerfi bandalagsins á undanförnum missirum og býr það nú við mun meiri aðgerðagetu en áður hefur verið. Hafa þessar umfangsmiklu breytingar undirstrikað mátt bandalagsins og aðlögunarhæfni þess í breyttri heimsmynd og breyttu ógnarumhverfi sem og hæfni þess til að ráðast í aðgerðir af nýjum toga.

Aðildarríkjum NATO fjölgaði umtalsvert á árinu er fánar sjö nýrra ríkja voru dregnir að húni á vormánuðum við höfuðstöðvar bandalagsins í Brussel. Var það endahnúturinn á áralöngu aðlögunarferli ríkjanna og mikill styrkur fyrir bandalagið.

Herra forseti. Ekki er hægt að láta hjá líða að minna á að bandalagsríkin voru minnt óþyrmilega á það á árinu að hryðjuverkaógnin væri enn viðvarandi. Mannskæð óhæfuverk voru framin í Madríd og í Suður-Ossetíu og voru þau sorgleg áminning um að fjórum árum eftir hryðjuverkin mannskæðu í Bandaríkjunum og stóraukið milliríkjasamstarf í baráttunni gegn hryðjuverkum eru öfgaöfl síst á undanhaldi og virðist athæfi þeirra verða æ miskunnarlausara.

Sem fyrr tók starfsemi NATO-þingsins mið af tíðindum á vettvangi alþjóðamála. Málefni Íraks og Afganistans voru fyrirferðarmikil í störfum nefnda þingsins sem og Atlantshafsstrengurinn og samskiptin yfir hafið. Þá hefur starfsemi Miðjarðarhafshóps NATO-þingsins aukist mjög á undanförnum árum og er svo komið að sá vettvangur er að verða einn sá mikilvægasti innan þingsins. Málefni mansals og barnasölu voru veigamikil í störfum félagsmálanefndar en sá sem hér stendur var höfundur skýrslu þess efnis í félagsmálanefnd NATO-þingsins.

Árið 2004 tók Íslandsdeildin virkan þátt í febrúarfundunum í Brussel og fundi stjórnarnefndar sem haldinn var í Ósló, vor og ársfundum þingsins í Bratislava og Feneyjum, auk fjölda nefndafunda utan þingfunda. Af öðru markverðu starfi Íslandsdeildar má nefna að á árinu hefur hún staðið að undirbúningi stjórnarnefndarfundar NATO-þingsins sem haldinn verður í Reykjavík um næstu mánaðamót. Einnig vil ég geta ársfundar þingsins, sem er stór og mikil samkunda og telur hátt á annað þúsund manns, sem verður haldinn í Reykjavík haustið 2007.

Þingmannasamtök NATO er nauðsynlegur umræðuvettvangur. Þar er tekist á og menn ræða hispurslaust um þau álitamál sem uppi eru. Það eru ekki aðeins fulltrúar NATO-ríkjanna sem eru þar á vettvangi. Fjöldi áheyrnarfulltrúa frá fjölmörgum þjóðlöndum í norðanverðri Afríku, austanverðri Evrópu og Asíu koma einnig að málum og það er á vettvangi Atlantshafsbandalagsins sem ósk um að fá að taka meiri og nánari þátt í starfsemi þingmannasamtakanna verður vart. Mikilvægi NATO er augljóst í hugum þessara þjóða og til þess veruleika verðum við að horfa.

Að lokum langar mig að minna stuttlega á skipan Íslandsdeildarinnar. Með fráfalli Árna R. Árnasonar var höggvið stórt skarð í okkar raðir. Í nefndinni sitja nú, auk þess sem hér stendur, Einar Oddur Kristjánsson og er varamaður hans Kjartan Ólafsson, Magnús Stefánsson kemur frá þingflokki Framsóknarflokks og er varamaður hans Dagný Jónsdóttir, varamaður minn er Ágúst Ólafur Ágústsson. Andri Lúthersson var ritari Íslandsdeildarinnar og hefur verið um langt árabil og fyrir hans frábæru störf er hér þakkað.

Í þessu stutta yfirliti gefst ekki tími til að fara yfir þau fjölmörgu mál og málaflokka sem sinnt hefur verið af NATO-þinginu heldur aðeins tæpt á helstu atriðum. Gleggri upplýsingar um starfsemi þingsins má finna í ársskýrslu deildarinnar.