131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Fríverslunarsamtök Evrópu 2004.

572. mál
[17:10]

Frsm. ÞEFTA (Gunnar Birgisson) (S):

Virðulegi forseti. Í ræðu minni kynni ég skýrslu Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA fyrir árið 2004. Skýrslan í heild sinni er lögð fram á þskj. 860.

Ég vík nú, virðulegi forseti að skipan Íslandsdeildar á árinu. Í upphafi árs 2004 skipuðu Íslandsdeildina eftirfarandi þingmenn: Gunnar Birgisson, formaður, Össur Skarphéðinsson, Birkir J. Jónsson, varaformaður, Guðlaugur Þór Þórðarson og Lúðvík Bergvinsson. Hinn 5. febrúar 2004 tók Bryndís Hlöðversdóttir sæti aðalmanns í stað Össurar Skarphéðinssonar. Íslandsdeildin var endurkjörin í upphafi 131. þings hinn 1. október og voru formaður og varaformaður endurkjörnir á fyrsta fundi nefndarinnar. Ritari Íslandsdeildar var Belinda Theriault, forstöðumaður alþjóðasviðs.

Í upphafi árs 2004 skipuðu Íslandsdeildina eftirfarandi þingmenn: Gunnar Birgisson, formaður, Össur Skarphéðinsson, Birkir J. Jónsson, varaformaður, Guðlaugur Þór Þórðarson, og Lúðvík Bergvinsson.

Þann 5. febrúar 2004 tók Bryndís Hlöðversdóttir sæti aðalmanns í Íslandsdeildinni í stað Össurar Skarphéðinssonar. Íslandsdeildin var endurkjörin í upphafi 131. þings þann 1. október og voru formaður og varaformaður endurkjörnir á fyrsta fundi nefndarinnar. Ritari Íslandsdeildar var Belinda Theriault, forstöðumaður alþjóðasviðs.

Síðasta ár var mjög annasamt hjá þingmannanefnd EFTA og fór fram mikil og góð vinna hjá Íslandsdeildinni. Sem formaður þingmannanefndarinnar árið 2004 bar ég höfuðábyrgð á starfi nefndarinnar. Ég var jafnframt varaformaður þingmannanefndar EES en fulltrúi Evrópuþingsins fór með formennskuna á síðasta ári.

Stækkun ESB og EES settu vissulega svip sinn á starf nefndanna á árinu og voru mál þessu tengd nokkuð til umræðu, sérstaklega fyrri hluta árs. Þingmannanefndirnar fjölluðu töluvert um áætlun ESB um innri markaðinn 2003–2006, sérstaklega fyrirhugaða lagasetningu á einstökum sviðum áætlunarinnar. Nokkuð var fjallað um málefni þróunarsjóðs EFTA, en segja mætti að aðkoma að ákvarðanatöku og lýðræðisleg vinnubrögð hafi verið fyrirferðarmest í umræðum þingmannanefndar EES á árinu.

Samskipti við þriðju ríki voru ofarlega á baugi í starfi þingmannanefndar EFTA. Mikið var lagt upp úr umræðum um þau mál á fundum með ráðherrum á árinu. Þingmannanefndin lagði áherslu á gerð fríverslunarsamninga við Japan, Mercosur í Suður-Ameríku, Suður-Kóreu, Tæland og Bandaríkin. Jafnframt lagði nefndin áherslu á að ljúka samningum við Kanada og við lönd við Miðjarðarhaf, Túnis, Marokkó og Egyptaland.

Virðulegi forseti. Framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA taldi mikilvægt að eiga fundi með fulltrúum þjóðþinga Eystrasaltsríkjanna vegna inngöngu þeirra í ESB og voru slíkir fundir haldnir í febrúar 2004. Framkvæmdastjórnin fór jafnframt til fundar við þingmenn í Búlgaríu og Rúmeníu til að kynna EES og ræða Evrópumál. Eru fundir af þessu tagi orðnir mikilvægur liður í starfi framkvæmdastjórnarinnar.

Að tillögu formanns var ákveðið að hefja umfjöllun um viðskipti með landbúnaðarvörur. Landbúnaðarmál eru orðin mikilvægur hluti af milliríkjasamningum á sviði viðskipta og vildi nefndin skoða þennan málaflokk með stefnumótunarvinnu í huga. Á síðasta fundi ársins, eftir ítarlega umfjöllun, samþykkti þingmannanefndin tímamótaályktun um landbúnaðarmál sem hún beindi til ráðherraráðsins. Beðið er nú viðbragða ráðherranna.

Í ályktuninni er viðurkennt að landbúnaður er pólitískt viðkvæmt mál í öllum EFTA-ríkjum, að EFTA-ríkin hafi ekki sameiginlega landbúnaðarstefnu og að landbúnaðarmál séu tekin upp í tvíhliða viðræðum í tengslum við gerð fríverslunarsamninga. Stuðningi er lýst við fríverslunarsamninga EFTA- ríkjanna og hvatt er til að enn meiri áhersla verði lögð á gerð fríverslunarsamninga. Þá er bent á að engar viðræður um fríverslun hafi siglt í strand vegna landbúnaðarmála þó að slík mál hafi valdið erfiðleikum í samningaviðræðum, og lýst er áhyggjum af því að varnarhagsmunir EFTA-ríkjanna kunni að valda frekari erfiðleikum í framtíðinni við að ná víðtækum fríverslunarsamningum. Því er farið fram á að EFTA-ríkin skoði landbúnaðarstefnu sína, kosti og galla þess að bjóða upp á aukin viðskipti með landbúnaðarvörur með tilliti til komandi fríverslunarsamningaviðræðna og hugsanlegs umfangs þeirra.

Þá er óskað eftir því að EFTA-ráðherrarnir íhugi hvort mögulegt sé að taka upp fríverslun í landbúnaði innan EFTA þó að samningar við þriðju ríki verði áfram tvíhliða mál hvers ríkis fyrir sig.

Þingmannanefnd og ráðgjafarnefnd EFTA héldu sameiginlega ráðstefnu í Reykjavík 21. október sl. í tilefni af tíu ára afmæli EES-samningsins. Ráðstefnan var mjög fjölsótt. Á ráðstefnunni var fjallað um hlutverk EFTA og Evrópska efnahagssvæðisins í nýrri Evrópu. Ráðstefnan var haldin í kjölfar þess að tíu ný aðildarríki gengu í Evrópusambandið, nýtt Evrópuþing hafði verið kjörið og ný framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tilnefnd. Ráðstefnan gaf þátttakendum tækifæri til að kryfja til mergjar þær áskoranir sem EES-samstarfið stendur frammi fyrir og ræða um hvernig megi mæta þeim sem best.

Venja er að Íslandsdeildin haldi fund með Evrópunefnd þjóðþings þess ríkis sem næst tekur við forustu innan Evrópubandalagsins, en nýtt forusturíki tekur við á sex mánaða fresti. Á árinu hélt deildin fundi með fulltrúum Evrópunefndar hollenska þingsins. Á slíkum fundum kynnir Íslandsdeildin helstu þætti EES-samstarfsins. Sérstök áhersla er lögð á stöðu Íslands og þær skuldbindingar sem Evrópusambandið og EFTA/EES-ríkin hafa gagnvart hvert öðru auk þess sem farið er yfir helstu þætti Evrópuumræðunnar á Íslandi, sérstaklega afstöðu Íslendinga til sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins.

Virðulegi forseti. Fjórar skýrslur voru teknar til umfjöllunar á fundum þingmannanefndar EES og ályktanir samþykktar á grundvelli þeirra. Í fyrsta lagi var tekin til umræðu skýrsla um ársskýrslu hinnar sameiginlegu EES-nefndar fyrir árið 2003. Í öðru lagi skýrsla um hlutverk sveitarstjórna í Evrópubandalaginu og á Evrópska efnahagssvæðinu. Bryndís Hlöðversdóttir var meðhöfundur skýrslunnar en í fjarveru hennar kynnti Björgvin G. Sigurðsson skýrsluna.

Í ályktuninni sem samþykkt var á fundinum er m.a. harmað að ekki skuli vera gert ráð fyrir samstarfi sveitarstjórna á EES-svæðinu í EES-samningnum. Lagt er til að sveitarstjórnarnefnd verði sett á laggirnar innan EFTA og að praktísk lausn verði fundin til að koma á óformlegu samráði á milli sveitarstjórnarnefndar EFTA og sveitarstjórnarnefndar ESB.

Þriðja skýrslan fjallar um innri markaðsáætlun Evrópusambandsins 2003–2006 og EES. Í ályktuninni er tæpt á mörgum atriðum áætlunarinnar og m.a. hvatt til þess að áfram verði unnið að auknu frelsi í þjónustuviðskiptum en jafnframt með áherslu á verkalýðsmál og neytendavernd.

Fjórða skýrslan fjallar svo um mótun ákvarðana í EES: hlutverk þingmanna. Í ályktuninni eru EES/EFTA-ríkin og þing þeirra m.a. hvött til þess að auka þátttöku þingmanna í umfjöllun um EES-lagafrumvörp, þing EFTA-ríkjanna eru hvött til að auka samskipti sín við þjóðþing aðildarríkja Evrópusambandsins og þingmannanefnd EFTA er hvött til að taka aftur upp samband við COSAC með það fyrir augum að fá einhvers konar aðgang að því samstarfi, en COSAC er félag þingmanna Evrópusambandsins.

Virðulegi forseti. Ljóst er að margvísleg málefni eru á döfinni hjá þingmannanefnd EFTA og hefur ekki gefist tími til að gera þeim öllum skil í dag. Ég vísa til ársskýrslu Íslandsdeildarinnar til nánari upplýsinga. Að þeim orðum sögðum læt ég lokið máli mínu um störf Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA fyrir árið 2004.