131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Upphæð ellilífeyris og skerðingarreglur.

[15:05]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst vekja athygli á því að málefnið sem hér er spurt um heyrir undir annan ráðherra en fyrirspurninni var beint til, (GAK: Þú ert … landskassans.) heyrir undir annan ráðherra og önnur lög en þau sem heyra undir fjármálaráðherra. Eigi að síður er sjálfsagt að reyna að svara hv. þingmanni.

Ég tel að við höfum í lögum ágæta reglu hvað varðar hækkun bóta, þ.e. hún er bundin því að bætur hækki ýmist í samræmi við það sem almenn laun í landinu hækka eða það sem nemur verðlagsbreytingum, ef svo illa fer að verðlagsbreytingar verði meiri en launahækkanir og kaupmáttur þar af leiðandi rýrnandi. Ellilífeyrisþegar eru varðir fyrir slíkri þróun með þessu lagaákvæði. Ég tel að það sé í grunninn ágæt regla sem hér hefur verið við lýði í allnokkur ár eins og við þekkjum. Auðvitað geta menn svo alltaf deilt um hvort einstakar fjárhæðir í þessu sambandi séu viðunandi, fullnægjandi, nægilegar fyrir einstaka hópa eða einstaka einstaklinga. Einhverja reglu verða menn að miða við og ég tel eins og er í pottinn búið að það sé eðlileg regla sem við búum við hvað þetta varðar.

Varðandi skerðingarákvæði og þess háttar þá má alltaf deila um útfærslu þeirra og varðandi það að lítill hópur ellilífeyrisþega njóti allra þeirra bóta sem kerfið býður upp á þá er það í sjálfu sér kannski ekki það versta að fáir skuli vera í svo slæmri stöðu. Hins vegar er það þannig að nýjasti bótaflokkurinn, svokallaður tekjutryggingarauki, var hugsaður sérstaklega fyrir það fólk sem verst væri komið fyrir í þessum aldurshópi og ég veit ekki annað en útfærslan á því máli, þ.e. tekjutryggingaraukanum, hafi almennt þótt gefast vel.