131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Starfshópur um viðbúnað vegna efna-, sýkla- og geislavopna.

[15:19]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Já, þessi hópur hefur skilað af sér skýrslu. Ég hef farið yfir hana og það hefur verið rætt um hvað eigi að gera í framhaldi af skýrslunni. Á morgun verður m.a. málþing á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um þessi mál þar sem fjallað verður um almannavarnamál. Þar verður þetta rætt eins og önnur mál sem þarf að taka afstöðu til. Það er ljóst þegar litið er til þessara þátta hér á landi að hæst ber skort á nauðsynlegum búnaði, klæðum og varnarbúnaði fyrir þá menn sem mundu þurfa að láta að sér kveða ef til slíkra atburða kæmi hér á landi.

Þetta mál var einnig til umræðu á þingi Interpols í síðustu viku og lögreglan hefur fjallað um það. Það er ljóst að alls staðar í heiminum eru menn að gera ráðstafanir á þessu sviði og þess vegna var tímabært framtak að láta semja þessa skýrslu. Það hefur verið unnið að því að framkvæma þær hugmyndir sem er að finna í skýrslunni.