131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Starfshópur um viðbúnað vegna efna-, sýkla- og geislavopna.

[15:20]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er fróðlegt að heyra að starfshópurinn hafi skilað af sér og að niðurstöður hans liggi fyrir. Þess vegna er erindi til að spyrja hæstv. ráðherra dómsmála hvenær niðurstöður skýrslunnar verði kynntar sérstaklega og af hverju það hafi ekki verið gert nú þegar fyrst svo langt er um liðið frá því að hópnum var a.m.k. ætlað að skila af sér, og þá hvenær hann skilaði að lokum af sér. Verður skýrslan kynnt sérstaklega, niðurstöður hópsins, og af hverju hefur verið svo hljótt um þær niðurstöður ef málið er svo brýnt sem ráða má af tilkynningu frá ráðuneytinu sjálfu? Þar kom fram að þetta væri meðal helstu viðfangsefna vestrænna ríkisstjórna nú um stundir.

Það er rúmlega eitt og hálft ár frá því að hópurinn var skipaður og lítið sem ekkert hefur gerst í því fram að þessari stundu nú. Því spyr ég hæstv. ráðherra af hverju niðurstöður skýrslunnar hafi ekki verið kynntar sérstaklega og þær aðgerðir sem hæstv. ráðherra og skýrsluhöfundar telja að grípa verði til þannig að þessu sé sinnt fullnægjandi hérlendis.