131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Framtíð Reykjavíkurflugvallar.

[15:37]

Halldór Blöndal (S):

Frú forseti. Samkvæmt fréttum í Morgunblaðinu hefur náðst samkomulag milli ríkis og borgarinnar um að leggja niður suðvestur/norðaustur brautina. Raunar var gert samkomulag um það á þeim tíma sem ég var samgönguráðherra, áður en ráðist var í endurbyggingu Reykjavíkurflugvallar, og var þá gert ráð fyrir að til þessa kæmi 5–7 árum eftir að endurbyggingu flugvallarins lyki. Þá var jafnframt lögð áhersla á það að samtímis yrði suðvestur/norðaustur brautin á Keflavíkurflugvelli tekin í notkun á nýjan leik af öryggisástæðum en hætt var að reka hana 1993 vegna þess að herinn vildi draga úr kostnaði við varnaraðgerðir hér á landi.

Það er sem sagt talið nauðsynlegt af öryggisástæðum að opna þá braut í staðinn. Nú er það svo að þessi suðvestur/norðaustur braut nýtist í útsynningi. Í sterkum útsynningi er hún nauðsynleg. Slíkur útsynningur var um daginn, 20–25 hnútar. Þá getum við áttað okkur á þýðingu brautarinnar. Á hinn bóginn hefur það komið fram að R-listinn í Reykjavík hefur lagt áherslu á að leggja niður norður/suður brautina. Um þá flugbraut fara um 60% umferðarinnar, hún er með öðrum orðum aðalflugbraut flugvallarins og af blaðafréttum að dæma er ljóst að Reykjavíkurborg hyggst halda þessari kröfu til streitu.

Ég vil af þeirri ástæðu beina þeirri fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra hvort hann muni ekki í þeim viðræðum sem fram undan eru halda fast við að norður/suður brautin verði ekki lögð niður. Það er augljóst að ekki er hægt að reka Reykjavíkurflugvöll með einni flugbraut, vestur/austur flugbraut. Það væri hið sama og að leggja flugbrautina niður og þýðir náttúrlega um leið að það dregur mjög úr öryggi í sambandi við slysavarnir og annað þvílíkt ef ekki er hægt að fljúga til Reykjavíkur. Þetta þekkjum við og vitum og nauðsynlegt er að fá svar hæstv. samgönguráðherra um það.

Á hinn bóginn getum við sem erum fulltrúar fólks úti á landi ekki horft fram hjá því að R-listinn er staðráðinn í því að leggja þessa flugbraut niður. Það kallar á það að stytta vegalengdir út á land og það kallar á það að byggja upp sterkara samgöngukerfi á landi. Ég hef ásamt ýmsum á Akureyri, m.a. bæjarstjóranum þar, lagt mikla áherslu á nauðsyn þess að stytta leiðina úr Borgarfirði til Skagafjarðar um Hallmundarhraun og Stórasand. Það yrði 40 km stytting. Ég vil af þessum ástæðum, vegna þeirrar óljósu stöðu sem Reykjavíkurflugvöllur er í ef við horfum fram í tímann, spyrja hæstv. samgönguráðherra þess hvort hann muni ekki leggja höfuðáherslu á að hraða og styrkja rannsóknir við lagningu Norðurvegar, vegarins um Hallmundarhraun og Stórasand. Ég held að við gerum okkur öll grein fyrir nauðsyn þess að tengja þessi tvö mestu þéttbýlissvæði landsins eins traustlega og unnt er, Reykjavík og Akureyri. Það er að sjálfsögðu mikið mál ef við horfum út frá umhverfislegu sjónarmiði til þess að draga úr loftmengun að hægt sé að stytta leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur. Það er að sjálfsögðu einnig vegna ferðaþjónustunnar, ef til kemur að R-listinn fái sitt fram og Reykjavíkurflugvöllur verði lagður niður, einnig vegna hins venjulega borgara og af öllum ástæðum nauðsynlegt að stytta þessa leið.

Þetta fer því saman við nauðsyn þess að reyna að halda við Reykjavíkurflugvelli, að hann geti áfram verið hér, en ef sjónarmið R-listans sem ráða ríkjum verða ofan á þýðir ekki að vera með óskhyggju. Nauðsynlegt er að bregðast skjótt við, nauðsynlegt að sýna forsjá og fyrirhyggju og velta fyrir sér öðrum möguleikum til að stytta leiðina frá Reykjavík til staða úti á landi.