131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Framtíð Reykjavíkurflugvallar.

[16:02]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Í ljósi þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram get ég tekið undir það sem bent hefur verið á, að það væri full nauðsyn á að taka almennt umræðu um samgöngukerfið á landinu og velta fyrir sér hvernig það hefur þróast, annars vegar með stefnumótun stjórnvalda og hins vegar af sjálfu sér. Hver tók ákvörðun um að leggja af flug á Blönduós? Hver tók ákvörðun um að leggja af flug í Stykkishólm? Ég held að það hafi enginn gert nema bara rekstraraðilarnir, það stóð ekki undir sér.

Það er auðvitað þannig sem við verðum að skoða þetta mál: Mun flug til Reykjavíkur halda velli miðað við breytta samgöngumöguleika? Ég hygg að við hv. þm. Halldór Blöndal séum báðir áhugamenn um að stytta og bæta vegakerfið þó að ég vilji frekar vera á láglendinu en hann á hálendinu.

Ég held að menn verði að horfa á það að Reykjavíkurflugvöllur nýtist ákaflega vel þeim sem þurfa að ganga erinda hér í borginni og sækja hingað af landsbyggðinni. Hann er mikilvægur fyrir landsbyggðina. Það breytir hins vegar ekki því að menn þurfa að skoða samgöngukerfið í heild og fara yfir það hvað mun gerast með breyttum og bættum vegasamgöngum og styttingu vegalengda. Hvað mun gerast með betri akstursleiðum að borginni? Ég nefni Sundabraut. Við getum hæglega lent í því á ákveðnum köflum dagsins að vera 40 mínútur upp í Kollafjörð ef álagið er nógu mikið. (Gripið fram í: Jafnlengi og … gengið … austur.) Kílómetrar í vegalengdum segja ekki allt. Það er tíminn sem við erum iðulega að mæla. Eru ekki allir að hamast við að mæla tíma sinn og arðsemi? Ég hefði haldið það.