131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

495. mál
[16:23]

Halldór Blöndal (S):

Frú forseti. Ég var fyrir mjög miklum vonbrigðum þegar ég sá nefndarálit umhverfisnefndar, raunar hissa á því að það skyldi vera einróma álit vegna þess að þetta mál er þannig vaxið að eðlilegt hefði verið ... (Gripið fram í.) Mér þykir gott að heyra það, hv. þingmaður. Eðlilegt hefði verið að þessi mál hefðu verið rædd á miklu breiðari grundvelli en framsögumaður nefndarinnar skýrði hér frá.

Ég vil í fyrsta lagi vekja athygli á því að þegar frumvarp hæstv. ráðherra var lagt fram lá þegar fyrir Alþingi frumvarp sem ég hafði flutt á þingskjali 478 um breytingu á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum þar sem ég legg til að veiðitímabil andaveiða verði stytt um þrjá mánuði. Ég er undrandi á því að nefndin skuli ekki hafa tekið það frumvarp til meðferðar um leið og fjallað var um það stjórnarfrumvarp sem hér liggur fyrir því þetta er auðvitað af sama meiði. Ástæðan fyrir því að rjúpnastofninn minnkaði svo mjög að óhjákvæmilegt var að banna allar rjúpnaveiðar í landinu var auðvitað sú að veiðitækni hefur fleygt fram og það er gengið miklu nær náttúru landsins en áður hafði verið gert.

Ýmsir hv. þingmenn eru að bera saman gamlan tíma og þann tíma sem við lifum á nú og þykir skemmtilegt að tala um að rjúpnaveiði sé nokkuð sem Íslendingar hafi vanist frá alda öðli og þess vegna sé undarlegt að leggja til að friðunartími rjúpna nái til þessa árs nú líka, að rjúpnaveiðar hefjist ekki á hausti komanda heldur kannski ári síðar þegar stofninn hefur aðeins stækkað. Þá er horft til fortíðarinnar.

Nú munum við það mjög vel, ég og hv. þingmaður, að Droplaugarsynir lögðu gildrur fyrir fugla, fyrir rjúpur á sínum tíma á Héraði og veiddu vel eins og fram kemur í þeirra sögu. Það væri fróðlegt að sjá þessa slyngu veiðimenn í dag veiða rjúpur í snörur. Ég hygg að eftirtekjan yrði lítil. Ég hygg að engum mundi detta það í hug. Ástæðan er einföld. Það eru miklu færri rjúpur hér á landi en áður var enda hefur óvinum rjúpunnar fjölgað og þeir eru búnir betri vopnum og betri tækjum en þeir Droplaugarsynir þó þeir þættu nú vaskir menn og knáir.

Það þarf ekki að fjölyrða um þau áhrif sem minkurinn hefur á fuglalíf. Ég er fullkomlega sammála hæstv. umhverfisráðherrum um að þörf er á því að herða verulega á minkaveiðum, verja til þess meira fé og er satt að segja undarlegt og hálfsorglegt að áhugaskotveiðimenn skuli ekki sýna þeim veiðum meiri athygli en raun ber vitni, minkaveiðunum. Sumir vilja halda því fram að mögulegt sé að útrýma mink á landinu, það kosti mikið fé, en þeir telja að það sé hægt. Aðrir eru tortryggnir. Ég kann ekki veiðitækni og skal ekki um það fullyrða. En hitt held ég að sé alveg ljóst að minkurinn gengur mjög nærri rjúpunni.

Við vitum að tófu hefur fjölgað, sérstaklega á Vestfjörðum og Suðurlandi ugglaust. Einu sinni var sú tíð meðan ég var blaðamaður á Morgunblaðinu að veiðistjóri fullvissaði mig um að búið væri að útrýma allri tófu í Gullbringu- og Kjósarsýslu, í landnámi Ingólfs Arnarsonar. Ekki veit ég hvort það er svo. En ég hef tvívegis mætt hér mink á förnum vegi og bauð góðan daginn í bæði skiptin. (Gripið fram í: Hvað sagði hann?) Minkurinn kinkaði kolli, ef hv. þingmaður er að spyrja um það. Þannig er nú þetta. Við höfum ekki lagt að mínu viti nægilega áherslu á að útrýma mink. Það má auðvitað halda því fram að ef menn stæðu betur að því þá væri kannski eitthvað hægt að rýmka um hjá skotveiðimönnum, fyrir þá sem áhuga hafa á slíku. Ég held að á meðan ekki er betur staðið að minkaveiðum á landinu öllu en nú er gert þá eigum við að hyggja betur að hinu þar sem við höfum betri tök á málum.

Ég er ekki í hópi þeirra þingmanna sem eru sannfærðir um að rjúpnastofninn hvarvetna á landinu þoli veiðar nú. Hv. þingmaður sagði að sérstaklega hefði verið farið yfir þá hluti í nefndinni. Ég hef kynnt mér þetta nokkuð nyrðra og ég þori að fullyrða að rjúpnastofninn er í algjöru lágmarki á Sléttu og í Kelduhverfi, eftir upplýsingum frá þeim mönnum sem þar hafa stundað fuglatalningu svo áratugum skiptir og eru náttúrubörn. Sumir vilja gera meira úr því að rjúpum hafi fjölgað og ágætur fuglavinur norður þar hefur svarað mér þannig að þeir sem ekki vilja leyfa rjúpnaveiðar gera minna úr fjölgun rjúpunnar en hinir sem vilja skjóta. Þetta skilur maður. En eftir sem áður ber öllum sögum saman um að rjúpnastofninn á því svæði þoli ekki skotveiðar á þessu ári nema eitthvað alveg óvænt og nýtt komi í ljós við rjúpnatalninguna nú í apríl.

Nú veit ég ekki hvort hv. þingmaður og nefndin hefur upplýsingar frá heimamönnum og útivistarmönnum á landinu. Ég þykist t.d. vita að í kjarrinu í Aðaldal sé eitthvað af rjúpu. Það er hins vegar dæmigert sem ágætur skíðagöngumaður sagði mér, að þegar hann gengur þar klukkutíma um hraunið þá geti hann vænst þess að sjá sex, átta eða kannski tíu rjúpur. Það er ekki mikið á þessum tíma.

Þó svo að mikið af rjúpu hafi komið niður í byggðina þegar snjóana gerði um daginn og hún hafi gert meira vart við sig heima við bæi en ella mundi þá er það ekki mælikvarði í þessu sambandi. Svo hefur ævinlega verið þegar alsnjóa er, að rjúpan flögrar þangað sem helst er von á mat og má líka vera að rjúpan sé spakari nú en oft áður vegna þess að hún hefur ekki verið skotin í tvö ár. Má vera að hún sé farin að líta á manninn heldur mildara auga en áður og líti ekki á hann sem höfuðóvin sinn.

Svo má velta fyrir sér spurningunni: Hvernig viljum við takmarka rjúpnaveiði, ef við á annað borð erum þeirrar skoðunar að hana eigi að leyfa?

Ég geri mér grein fyrir því að hugmyndir mínar, ef ég fylgi þeim eftir til hins ýtrasta, ná ekki meiri hluta á Alþingi. Ég hef a.m.k. ekki trú á því. Ég hygg þó að við eigum öll að geta verið sammála um að hefja rjúpnaveiðina örlítið seinna, 1. nóvember í staðinn fyrir 15. október. Ef hugmyndin á að vera sú að hver og einn fái lítið, enginn megi selja, enginn kaupa og enginn flytja út, þá hlýtur það að vera nógur tími, að rjúpnatímabilið standi frá 1. nóvember. Ég get ekki skilið hvers vegna það þarf að standa lengur.

Ég vil biðja formann nefndarinnar að velta þessu svolítið fyrir sér milli 2. og 3. umr., líka vegna þess að mikið er lagt upp úr því að torfærubíla og snjósleða megi ekki brúka. Þó finnst mér rétt að hv. þingmaður velti því fyrir sér hvort tíminn sé ekki of langur. Ég hygg að menn séu flestir um það sammála sem um þetta hafa hugsað.

Ég vil spyrja hv. þingmann, framsögumann nefndarinnar, um annað. Þegar talað er um merkta vegslóða í 17. gr., er þá átt við kort sem Vegagerðin gefur út á hverju ári um þá vegi og viðurkennir sem slíka? Ég get tekið sem dæmi veginn yfir Hallmundarhraun, Tvídægru og niður í Miðfjörð. Má vera að það sé þetta kort sem hv. þingmaður hefur í huga þegar hann talar um merkta vegslóða. Eða hvers konar merkingar er verið að tala um? Eftir hverju á að fara? Ég er ekki viss um að það sé ljóst.

Ég hygg að ég verði að leggja áherslu á að ég treysti mér ekki til að greiða atkvæði með þessu frumvarpi ef niðurstaðan verður sú að veiðitímabil rjúpunnar eigi að hefjast 15. október. Ég tel óhjákvæmilegt að stytta veiðitímabilið og hef flutt breytingartillögu þar að lútandi. Mér finnst á hinn bóginn sjálfsagt, vegna ummæla hv. þingmanns um að hann ætli að skoða þessar breytingartillögur mínar á milli 2. og 3. umr., að draga þær til baka við 2. umr. til 3. umr. til að nefndinni gefist svigrúm til að fara yfir hvort ekki sé skynsamlegt að koma til móts við þá sem óttast um rjúpnastofninn með því að stytta veiðitímabilið. Ég er sannfærður um að því yrði vel tekið. Jafnsannfærður er ég um að þeir sem fara á rjúpnaveiðar eingöngu til að ná sér í matinn fyrir aðfangadag hafi nægan tíma til þess á þeim 45 dögum, eða hvað það er, sem eftir verða.

Í annan stað vil ég minnast á tillögur mínar um að stytta veiðitímabil andanna. Ég hafði orð á því við 1. umr. þessa máls að lindarsvæðin víðs vegar um landið eru afskaplega þröngt vetrarbúsvæði og viðkvæm fyrir skotveiði. Ég nefndi sérstaklega Laxá í Þingeyjarsýslu, Litluá í Kelduhverfi, Sogið og Úlfljótsvatn, Ölfusið, Veiðivötn, Apavatn, Rangárnar og Lindir undan Skaftárelda- og Landbrotshraunum, sem ef til vill væri rétt að friða.

Nú liggur það fyrir, sem ég ekki vissi við 1. umr. málsins og hafði ekki áttað mig á, að Umhverfisstofnun lítur svo á að í lagaheimildum um að friða tiltekin svæði sé ekki gert ráð fyrir að þau taki til eignarjarða. Öll þau svæði sem ég taldi upp eru hins vegar á láglendi þannig að umhverfisráðherra hefur ekki heimild til að friða þau, samkvæmt þeim skilningi sem Umhverfisstofnun gaf mér í morgun. Þetta þýðir að friðuð svæði, þær lagaheimildir sem þar eru, taka þá einungis til þjóðlendna. Þetta þykir mér nokkuð merkilegt. Ég vil óska eftir því að formaður nefndarinnar kynni sér þetta atriði sérstaklega milli 2. og 3. umr. í nefndinni. Auðvitað þarf ekki atbeina ráðherra til ef allir jarðeigendur ákveða að banna andaveiði. Þá þarf ekki atbeina ráðherra til. Það er augljóst. Mér þótti þetta því mjög athyglisverð túlkun hjá þeim sérfræðingi Umhverfisstofnunar sem ég talaði við í morgun.

Úr því að við getum ekki farið þá leið að friða þau viðkvæmu svæði sem ég hef gert grein fyrir þá er aðeins ein leið fær. Hún er að stytta veiðitímabilið, banna veiðarnar eða stytta veiðitímabilið með lögum. Reynslan hefur sýnt að ráðherrar hafa af einhverjum ástæðum ekki talið þörf á að stytta það veiðitímabil sem heimilt er að skjóta endur.

Ég fór í ræðu minni við 1. umr. nokkuð yfir ástand andastofnanna. Ég vakti athygli á því að mjög algengt er að veiðimenn geti ekki greint í sundur einstaka tegundir, þekki ekki muninn á gráandarkollum, húsandarkollum eða stóru-toppandarkollum. Þeir hafa verið staðnir að því. Eins og ég rifjaði einnig upp hefur birst mynd á vefnum þar sem erlendir menn eru hvattir til að koma hingað til skotveiða. Myndin sýnir heldur upprifinn veiðimann með tvo straumandarsteggi í fanginu. Þannig var viðhorfið hjá þeim mönnum sem skipulögðu þær fuglaveiðar hér á landi, að þeir höfðu ekki hugmynd um að þetta væri straumönd eða að þeir höfðu ekki hugmynd um að straumöndin væri friðuð. Hefðu þeir vitað annað hvort hefðu þeir að sjálfsögðu ekki birt þessa mynd á vefnum þegar þeir hvöttu útlendinga til að koma til landsins til skotveiða.

Nú geta menn spurt: Hvernig í ósköpunum stendur á því að hv. þingmaður vill banna andaveiðar í janúar, febrúar og mars? Ástæðan er einföld. Ég tel að sá hluti andastofnsins sem nær að halda lífi fram yfir áramót sé líklegastur til að lifa af til vorsins og líklegur er til að para sig, verpa og viðhalda stofninum. Ef við horfum út núna og sjáum hvernig viðrar, hversu lengi bjart er á kvöldin, þá sjáum við hve auðvelt er að komast að vökunum og lindunum hvarvetna á landinu. Ef við höfum augun opin þá vitum við að það nær engri átt að leyfa mönnum að skjóta endur á þessum árstíma. Það nær engri átt.

Ég hef fundið það hjá mönnum, þann tíma sem liðinn er síðan ég lagði frumvarp mitt fram, að fjöldi manns áttaði sig ekki á því að það væri yfirleitt heimilt að skjóta endur. Ég átta mig líka á því að ýmsir þeir sem í öndverðu snerust gegn hugmyndum mínum hafa nú lýst yfir stuðningi sínum og skilningi. Þeir áttuðu sig á að ég er ekki að leggja til að andaveiðar verði með öllu bannaðar. Ég legg það einungis til að andaveiðar verði bannaðar eftir áramót en það megi eftir sem áður skjóta endur frá 11. september fram að áramótum. Ég skil satt að segja ekki að í þessum háa þingsal skuli vera fólk sem leggst gegn svo sanngjarnri tillögu.

Allmörg okkar í þessu landi hlökkum til vorsins, hlökkum til að fara um og virða fyrir okkur fuglalífið þegar það vaknar úr vetrardrómanum. Við getum ekki skilið að sú skoðun þyki rétt, sanngjörn eða heiðarleg, að leyfa andaveiðar nær allan veturinn. Af hverju má ekki skjóta endur til 1. maí? Það má til 1. apríl, af hverju ekki til 1. maí? Af hverju ekki apríl líka? Af hverju ekki segja að skjóta megi endur fram að páskum? Af hverju hafa menn ákveðið að undanskilja apríl og maí? September, október, nóvember, desember, janúar, febrúar, mars; allan þennan tíma má skjóta andir hér við Ísland. Þegar maður kemur síðan niður að lindunum þá eru þær styggar vegna þess að þær eiga von á að sjá fjandmann sinn fyrir. Er þetta það sem menn telja sína hugsjón? Ristir hugsjónin ekki dýpra en þetta?

Guðmundur Sigurjónsson á Sandi hefur skrifað fallega um fugla og fuglalíf og Bjartmar sonur hans sömuleiðis. Ég man sérstaklega eftir mjög fallegri grein eftir Guðmund á Sandi, um stóru-toppandarhjónin sem höfðu orpið í hólma í Laxá. Þau voru skotin. Við vitum raunar líka að ýmsir hafa haldið því fram um toppendurnar að skynsamlegt væri að hafa þær réttdræpar þar sem þær ætu síli. Aðrir hafa bent á að nauðsynlegt sé að grisja vötnin. En hvað sem því líður, ætli þessi 300 pör af stóru-toppönd sem verpa á Íslandi sé nú svo mikið að mönnum ætti að óa við því?

Ég veit að stóra-toppönd var drepin nú fyrir tveimur árum, í misgripum var sagt, fyrir gráönd. Ég er ekki trúaður á að það sé rétt. Og þó, sennilega er það rétt. Þegar fer að rökkva, hversu margir skyldu það vera sem þekkja sundur kollurnar í rökkrinu? Hversu margir skyldu þeir vera? Formaður Skotveiðifélagsins, ætli hann þekki þær í sundur? Hverjir skyldu það vera? Ég þekki mikla fuglaskoðara, þeir segjast ekki vera öruggir og þeir segjast ekki þekkja þær í sundur. Fólk sem er alið upp við fuglaskoðun getur ekki áttað sig á andartakinu þegar endurnar fljúga upp eftir að fer að rökkva hver tegundin er, þó það séu steggir eða steggjar, eins og Guðmundur á Sandi sagði og Þorgeir í Grásíðu.

Ég legg á það áherslu að stytta veiðitímann. Í tillögum mínum er ég ekki með kröfu um að andaveiðar verði bannaðar og vænti þess að þingmenn horfi til málsins í því ljósi.

Að síðustu legg ég til að hin sama regla verði látin gilda um kjóa og skúm, að ætíð sé heimilt að skjóta kjóa og skúm nærri æðarvarpi. Þetta hygg ég að menn geti vel skilið. Skúminum hefur fjölgað nú mjög á síðustu árum og áratugum. Hann er auðvitað á söndunum sunnan lands og hann er kominn í Héraðsflóa. Skúmurinn er við ósa Jökulsár á Fjöllum. Skúmurinn er á söndunum milli Laxár og Skjálfandafljóts í þeirri miklu og fallegu anda- og kollubyggð sem þar er, þar sem mikið hefur verið lagt á sig til að styrkja æðarvarpið.

Ég sé á breytingartillögunum að tekið var tillit til þess sjónarmiðs sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson lagði fram, en ég ætla að leyfa mér að vona að formaður nefndarinnar íhugi það með jafnopnum huga hvort ekki sé rétt að láta sömu regluna gilda um þessa frændur, kjóann og skúminn. Ég veit ég þarf ekki að lýsa fyrir hv. þingmanni aðferðum skúmsins þegar hann drepur kolluna með því að slá hana með vængnum. Við getum raunar líka rifjað upp átakanlegar sögur eins og þegar Guðmundur á Sandi sá skúminn ráðast að rauðhöfða og flaug síðan burtu en rauðhöfðinn svona rétt bjargaðist að landi, þá var skúmurinn búinn að éta hnakkabitann úr fuglinum þannig að hann gat ekki haldið höfði en skildi hann þannig eftir, laflausan og auðnulausan og nær dauða en lífi. Þetta eru auðvitað ekki fallegar aðfarir. Yfirleitt er það auðvitað svo um ránfugla að aðfarir þeirra eru ekki fallegar en slíkur vargur er mikil ógnun við æðarvarpið og andarvarpið.

Þess vegna þykir mér sjálfsagt að hin sama regla verði látin gilda um kjóann og skúminn. Sumir hafa viljað halda því fram að skúmurinn sé svo merkilegur að hann sé hér í útrýmingarhættu. Það var sagt þegar ég var lítill, en það er mjög mikill misskilningur. Honum fjölgar og fjölgar og er þess vegna ekki af þeim sökum ástæða til að láta aðrar reglur gilda. Ef ég man rétt, formaður umhverfisnefndar getur leiðrétt mig ef ég fer rangt með, var kjóinn allsráðandi við Héraðsflóa fyrir nokkrum áratugum, en skúmurinn hefur blandað sér í þau yfirráð og er orðinn mjög áberandi á þeim slóðum nú.

Ég hef farið, frú forseti, yfir tillögur mínar. Stytting veiðitímabilsins á rjúpunni byggist á því að það er stefna hæstv. umhverfisráðherra að banna öll viðskipti með rjúpur, svo ekki þarf að horfa til þess. Þá hygg ég að því verði að fylgja eftir með því að stytta veiðitímann og sýna að alvara sé á bak við þá tillögu.

Ég legg til að stytta veiðitímann sem skjóta má endur vegna þess að þeim hefur nú fjölgað mjög sem leggja þær veiðar fyrir sig á þessum árstíma. Þeir eru með miklu fullkomnari veiðibúnað en áður var og ganga til þessa verks að skjóta endurnar með öðru hugarfari en áður var. Ég held að þetta sé alveg ljóst, a.m.k. eftir þeim lýsingum sem bændur hafa gefið mér og ég heyri frá þeim bæði sunnan- og norðanlands.

Það eru jafndægri nú í mars. Það er leyft að skjóta endurnar í september, þá er bjart. Það á skjóta þær núna í mars, í birtunni allri. Í vorbirtunni á að skjóta þær. Þegar maður sér sólina hækka á lofti frá degi til dags, maður hlakkar til að vakna af því sólin er fyrr komin upp. Á þeim tíma leggjum við mest upp úr andaveiðinni.

Að síðustu legg ég áherslu á eins og ég sagði að koma til móts við æðarbændur og friða landið, vernda andastofninn í leiðinni, með því að stöðva eða ekki stöðva, heldur standa aðeins á móti því að skúmurinn leggi fleiri sandstrendur undir sig.