131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

495. mál
[17:37]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni, ef ráðherrann kýs svo. Það er líka rétt hjá honum að við kusum í nefndinni að taka út þessa tilvísun til stofnsins þegar um er að ræða takmarkanir á veiðitímanum vegna þess að slík tilvísun væri í raun og veru fáránleg þegar þingið er að gefa ráðherranum heimild til að grípa til vægari aðgerða en þeirra sem ráðherrann hefur heimild til nú, þ.e. bannsins, og í bannákvæðinu er engin tilvísun til stofnsins. Þar gildir aðeins hið almenna að ráðherra verður að geta rökstutt ákvörðun sína. En hann þarf ekki að taka tillit til stofnstærðarinnar í lögunum eins og þau eru núna.

Í síðara tilvikinu var um sölubann að ræða og þá þótti okkur í nefndinni og ráðgjöfum okkar ráðlegt að taka þetta fram um stofninn vegna þess að þar væri beinlínis verið að grípa inn í viðskiptalífið og þá þyrfti sérstakar ástæður til þess. Það er ástæðan fyrir því að þetta var gert að þessu leyti.

Það er svo rétt hjá hv. þingmanni, forseti, að frumvarpið hefur áhrif á andaveiðar í landinu vegna þess að með því eru andaveiðarnar, eins og hv. þm. Gunnar Birgisson benti á, settar undir sama hatt og aðrar fuglaveiðar, þ.e. að ráðherra getur, ef hann kýs, beitt sömu heimild, sömu vægari aðgerðum gagnvart andaveiðunum og rjúpnaveiðunum, í staðinn fyrir hinar harðari aðgerðir sem er bara að banna þær. Að því leyti fjallar frumvarpið um endur en það fjallar auðvitað ekki um endur að neinu öðru leyti og það hefur ekki verið lagt neitt mat á það í vinnu nefndarinnar nú, enda nóg annað að gera við þetta frumvarp og í þessu rjúpnamáli, hvenær eigi að veiða endur og hvenær ekki og hvenær eigi að skjóta skúm og kjóa, en það er sjálfsagt að gera það síðar eins og kom fram í ræðu minni þar sem ég skoraði á hv. þingmann að flytja frumvarpið aftur næsta vetur.