131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

495. mál
[17:43]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hafði skilið þetta sölubann með svipuðum hætti og hv. þm. Halldór Blöndal, að innan veiðitímans væri ekki um sölubann að ræða, nema menn væru að beita því sem viðbótaraðgerð við einhverja frekari takmörkun. Ég held líka að það sé æskilegt þegar við tökum upp rjúpnaveiðar aftur eftir tveggja ára friðun að þær verði með sem líkustu lagi og þegar við hættum þeim þannig að við fáum mynd af því hvernig veiðarnar ganga fyrir sig.

Það er jú svo að rétt skráður afli, hvort sem hann er til sjós og lands, er miklu betri upplýsingar en rangt skráður afli, miklu áreiðanlegri. Ef við ætlum að hafa einhvern möguleika til að bera þetta saman við fyrri veiðar þá held ég að nauðsynlegt sé að menn vinni í megindráttum eftir þeirri reglu að menn fari til rjúpna og komi með feng sinn til baka sem sína veiði, hvort sem það eru 10, 20 eða 30 rjúpur eftir daginn. Ég held að það væri mjög óæskilegt almennt séð að setja kvóta á rjúpnaveiðarnar. Það yrði eingöngu til þess að þær mundu breytast í þá veru að mönnum fyndist þeir ekki menn með mönnum nema þeir næðu þessum blessaða kvóta og leituðust við að keppa sérstaklega að því fyrir utan það að auðvitað er hægt að skiptast á rjúpum hvar sem er til fjalla.

Þetta vildi ég sagt hafa, virðulegi forseti, og tel gott að byrja rjúpnaveiðarnar með sama lagi og við hættum þeim.