131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Umgengni um nytjastofna sjávar o.fl.

215. mál
[18:39]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við ræðum um fjóra lagabálka sem hafa víðtæk réttaráhrif með margvíslegri framkvæmd. Ég tek undir það sem hv. formaður nefndarinnar og hv. þm. Jón Gunnarsson hafa sagt að málið er til bóta eins langt og það nær og tekur á því að ekki séu mörg hundruð þúsund króna sektir fyrir tiltölulega litlar yfirsjónir.

Ég vil hins vegar beina þeirri spurningu til hv. formanns nefndarinnar, Guðjóns Hjörleifssonar, hvort menn í nefndinni hafi tekið sér það fyrir hendur að skoða þær fjölmörgu reglugerðir sem byggja á lögunum og hafi farið yfir þær, því þar eru jú refsiákvæðin sem tengjast framkvæmd laganna, þ.e. settar eru á grundvelli laganna fjöldamargar reglugerðir, ég hef ekki tölu á því hve margar þær eru. (Gripið fram í: 311.) 311 er kallað fram í, ég get vel trúað því að það sé rétt. Þar að auki er í sumum laganna þó nokkuð mikið af bráðabirgðaákvæðum sem hafa dottið inn í gegnum árin, misjafnlega gáfuleg og vel eða illa útfærð eftir því hvernig menn líta á það. Sumt af þessu virkar dálítið tilviljanakennt að mínu viti og þess vegna hefði ég viljað fá upplýsingar um það hvort nefndarmenn hafi sest yfir reglugerðirnar, skoðað reglugerðabáknið sem fylgir hverri lagasetningu, hverjum lagakafla og farið yfir þau atriði sem þar er verið að tala um að varði brot o.s.frv.

Ég nefni einfaldar reglur eins og að veiðarfæri skuli merkt, fánar á baujum skuli merktir hvers skipið er, skrifað á belgi hvers skipið er o.s.frv. þannig að ávallt megi sjá hverra veiðarfærin eru. Nú getur margt borið fyrir á sjó eins og þið þekkið öll sem eruð í salnum, merkingar geta auðvitað farið fjandans til, ef hægt er að segja svo, og þó að það teljist ekki sektarákvæði við fyrsta brot mundi ég segja að viðurlögin væru ansi hörð þegar litið er til smávægilegra framkvæmdabrota eins og að annar endi á netatrossu eða línu sé ekki rétt merktur o.s.frv., ef menn vilja virkilega fara eftir reglugerðunum sem lögin byggja á. Þar erum við komin að vanda málsins.

Í öllum þeim fjölda reglugerða sem hanga á lögunum er auðvitað hægt að finna atriði sem menn geta orðið brotlegir við, bæði viljandi og óviljandi og jafnvel oft óviljandi. Þau geta orðið að dómsmáli þó að oft sé reynt að lenda þessu, en þau ættu raunverulega að fylgja brotunum ef þeim væri framfylgt. Maður hefur oft velt því fyrir sér hvort ásættanlegt sé að smávægilegt brot, þó brotið sé endurtekið tvisvar á sömu vertíð, geti sætt lágmarkssekt sem eigi er lægri en 400 þús. kr., og geri ég mér grein fyrir að í þessu máli er vissulega verið að laga ástandið frá því sem áður var.

Ég vil beina því til formanns nefndarinnar að nefndin fari fram á það við sjávarútvegsráðuneytið að greindar verði reglugerðirnar fyrir hvern lagabálk fyrir sig og að ráðuneytið fái Fiskistofu til að gera grein fyrir því hve oft refsiákvæðum hefur verið beitt á hver lög og hverja reglugerð. Ég held að það sé nauðsynlegt svo menn fái heildaryfirsýn yfir verkið. Ef í reynd er ekki verið að hengja sig mjög nákvæmlega í refsigleði á framkvæmdina og reglugerðirnar túlkaðar meira sem leiðbeinandi gæti lagasetningin hér verið algjörlega ásættanleg. En ef það er þannig í reynd að verið sé meira og minna að sækja að fólki sem starfar við atvinnugreinina vegna atriða sem menn eiga ekki mikla möguleika á að bregðast við af ýmsum ástæðum mælist ég til þess að nefndin skoði það betur. Embættismenn ráðuneytisins eða Fiskistofu hljóta að geta gefið upplýsingar um þetta sem hægt er að festa fingur á og ég mælist til þess að menn biðji um þær upplýsingar áður en við afgreiðum málið við 3. umr.