131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Rannsóknarnefnd umferðarslysa.

236. mál
[18:48]

Frsm. samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um rannsóknarnefnd umferðarslysa af hálfu samgöngunefndar.

Nefndin hefur fengið fjölmarga aðila á sinn fund til að ræða málið.

Í frumvarpinu er lögð til heildstæð löggjöf um hlutverk og störf rannsóknarnefndar umferðarslysa. Ákvæði um rannsóknarnefnd umferðarslysa er nú að finna í 115. gr. a umferðarlaga, nr. 50/1987, auk þess sem í gildi er reglugerð um rannsóknarnefnd umferðarslysa, nr. 681/1998. Í gildandi lagaákvæði er mælt fyrir um heimild ráðherra til að skipa rannsóknarnefnd umferðarslysa en ákvæði um starfsemi og skyldur nefndarinnar er aðeins að finna í reglugerð.

Með setningu heildarlaga um rannsóknarnefnd umferðarslysa er starfsgrundvöllur nefndarinnar tryggður. Þá eru reglur um stjórnsýsluhætti nefndarinnar og skiptingu ábyrgðar á milli nefndarmanna og starfsmanna nefndarinnar gerðar skýrari. Önnur veigamikil atriði sem tekið er á í frumvarpinu eru samskipti nefndarinnar og lögreglu og meðferð og vernd persónuupplýsinga sem nefndin aflar.

Við gerð frumvarpsins hefur verið höfð hliðsjón af lögum er gilda um störf rannsóknarnefndar flugslysa og rannsóknarnefndar sjóslysa, sem og erlendri löggjöf á þessu sviði.

Við meðferð málsins í nefndinni vöknuðu upp spurningar um umfang skráningar umferðarslysa og hverjir það eru sem skrá og rannsaka slík slys hér á landi. Til að geta gert sér sæmilega mynd af þessu samþykkti nefndin að leita svara hjá nokkrum aðilum um þetta efni. Athugun nefndarinnar leiddi í ljós að skráning umferðarslysa fer fram hjá nokkrum aðilum en skráning annarra virðist ekki skarast á við störf rannsóknarnefndar umferðarslysa.

Þá kom til umræðu við meðferð málsins í nefndinni að athuga bæri hvort ekki mætti samtvinna að nokkru leyti störf rannsóknarnefnda á sviði samgangna í því tilliti að takmarka útgjöld. Sú umræða leiddi í ljós að sameining þessara nefnda getur verið vandasöm og varasamt að farið sé of geyst í þeim efnum. Því samþykkti nefndin að leggja til í tillögu til þingsályktunar að ráðherra verði falið að setja saman nefnd er kanni þá möguleika sem fyrir hendi eru varðandi sameiningu þessara nefnda og kosti þeirra og galla.

Nefndin leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu. Þær eru eftirfarandi:

1. Að 1. mgr. 2. gr. verði breytt þannig að sá tilgangur rannsókna á umferðarslysum að draga úr afleiðingum þeirra falli betur að orðalagi ákvæðisins. Nefndarmenn telja rétt að í lögum sé kveðið á um þennan þátt þannig að rannsóknarnefnd umferðarslysa geti í skýrslum sínum bent á þætti sem takmarkað geti alvarlegar afleiðingar slysa, svo sem vegabætur eða boðun lögreglu og sjúkraliðs.

2. Að ákvæði um aðgang rannsóknarstjóra og rannsóknarnefndar umferðarslysa skv. 8. gr. frumvarpsins verði breytt þannig að rannsóknarstjóri hafi óheftan aðgang, líkt og er í frumvarpinu, en rannsóknarnefndin hafi aðgang í samráði við lögreglu. Telur nefndin að með þessu sé rannsóknaraðstaða beggja tryggð en þess jafnframt gætt að lögregla hafi rúm til að tryggja öryggi á vettvangi og slíkt áður en fleiri aðilum er hleypt þar að. Nefndin sér ekki þörf fyrir að aðrir starfsmenn rannsóknarnefndarinnar hafi ámóta aðgang að vettvangi. Við meðferð málsins kom fram að gott samstarf hefur verið á milli þessara aðila, sem nefndin telur að skipti miklu máli.

3. Að 10. gr. verði breytt í þeim tilgangi að tryggja frekar heimild nefndarinnar til gagnaöflunar og vernd persónuupplýsinga. Eru þessar tillögur gerðar m.a. að teknu tilliti til umsagnar Persónuverndar um málið. Til umræðu kom að takmarka aðgang rannsóknarnefndarinnar að krufningarskýrslum, t.d. við ákveðna þætti hennar eða vottorð unnið upp úr þeirri skýrslu, en athugun leiddi í ljós að slíkt er talið óráðlegt og takmarka vinnu nefndarinnar um of. Þá fékk nefndin staðfest að rannsóknarnefnd umferðarslysa fylgir þegar ströngum verklagsreglum við meðferð persónupplýsinga og er að vinna í endurnýjun þeirra í samráði við Persónuvernd. Því leggur nefndin ekki til frekari breytingar en þessar hvað varðar aðgang að þessum upplýsingum.

4. Að starfshlutverk forstöðumanns verði gert tryggara með breytingu á 11. gr.

5. Að orðalagi 2. og 3. mgr. 12. gr. verði breytt. Tilgangur með breytingu á 3. mgr. er sá að gera það skýrara en er í frumvarpinu að rannsóknarnefndin geti ekki haft beint boðvald yfir framkvæmdaraðilum, ríki eða sveitarfélögum, þegar kemur að endurbótum á mannvirkjum til að draga úr slysum. Nefndinni ber samt sem áður að koma tilmælum á framfæri við þessa aðila um hvað má betur fara og getur fylgt slíkum tilmælum eftir að nokkru leyti með eftirgrennslan. Það má þó ljóst vera að þrír mánuðir eru skammur tími þegar kemur að endurbótum samgöngumannvirkja sem geta verið flóknar og krefjast vandaðrar hönnunar og mikils fjármagns. Því leggur nefndin til að sá tími sem þarf að líða frá því að nefndin hefur sent tilmæli til framkvæmdaraðila og þar til hún getur leitað eftir upplýsingum um hvernig hafi verið brugðist við þeim verði lengdur úr þremur mánuðum í sex.

6. Lagt er til að fellt verði brott úr frumvarpinu bann við að nota skýrslur nefndarinnar við meðferð einkamála en bann við notkun þeirra í opinberum málum verði óbreytt. Sönnunarstaða aðila og tilgangur einkamála er allt annar en í opinberum málum og ekki sama ástæða til að banna notkun þessara gagna í einkamálum. Er þessi breyting lögð til m.a. að teknu tilliti til umsagnar Lögmannafélags Íslands.

7. Lagt er til að lögin öðlist gildi 1. september 2005. Framkvæmdarvaldinu gefst þá tími til undirbúnings og aðlögunar fram að þeim tíma hvað varðar mannaráðningar o.fl.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Hv. þingmenn Arnbjörg Sveinsdóttir, Björgvin G. Sigurðsson og Magnús Stefánsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Guðmundur Hallvarðsson formaður, Hjálmar Árnason, Bryndís Hlöðversdóttir, Guðjón Hjörleifsson, Guðjón A. Kristjánsson og Kristján L. Möller.

Virðulegi forseti. Við teljum að hér sé mikið þarfamál á ferðinni með tilliti til þess að við höfum fengið umsagnir frá fjölmörgum aðilum sem fagna þessu fram komna frumvarpi. Alvarleiki málsins er sá að dauðaslys og alvarleg slys í umferðinni eru nú um 120 á ári og því full ástæða til að alvarlega séð gefinn gaumur að umferðarslysum hér á landi og reynt að bæta þar um svo fækka megi slysum.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni 2. umr. verði málinu vísað til 3. umr.