131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Rannsóknarnefnd umferðarslysa.

236. mál
[18:55]

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil lýsa ánægju með frumvarpið um rannsóknarnefnd umferðarslysa. Ég tel mikilvægt eins og fram hefur komið að nefndin hafi stoð í lögum en ekki einungis í reglugerð eins og er í dag og að allur rammi utan um vinnu nefndarinnar sé skýr og einnig öll ákvæði um persónuvernd. Alvarleg umferðarslys sem kalla á rannsókn rannsóknarnefndar eru viðkvæm. Þetta eru persónuleg mál og því mjög mikilvægt að meðferð persónuupplýsinga sé með mjög skýrum hætti.

Erindi mitt í ræðustól er eingöngu að lýsa ánægju minni með þá vinnu sem fram hefur farið. Komið hafa fram fjölmargar athugasemdir um frumvarpið og hefur verið tekið tillit til þeirra eftir því sem ég best þekki til. Mér sýnist á öllu að hv. nefndarmenn samgöngunefndar séu að leggja sig fram við að búa svo um hnútana að bæði rannsóknum og öllum ábendingum um hvað megi betur fara, bæði hvað varðar mannvirki og ýmis atvik í umferðinni verði hægt að koma til skila. Vonandi verða það meira en eingöngu ábendingar í framtíðinni og fjármagn verði tryggt til að framkvæma þær breytingar sem þarf að gera bæði á umferðarmannvirkjum og eins að koma reglum og lagabreytingum á aðra þætti sem lúta að öðru en umferðarmannvirkjum.