131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Þunglyndi meðal eldri borgara.

71. mál
[18:58]

Flm. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um rannsóknir á þunglyndi meðal eldri borgara. Tillagan hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að skipa nefnd sem rannsaki þunglyndi meðal eldri borgara og meti umfang þess. Nefndin kanni sérstaklega tíðni sjálfsvíga og sjálfsvígstilrauna hjá eldri borgurum. Nefndin kanni einnig hvaða leiðir séu heppilegar til að koma í veg fyrir þunglyndi á meðal eldri borgara.

Nefndin verði skipuð níu einstaklingum. Ráðherra skipi formann án tilnefningar og landlæknir, Læknafélag Íslands, Félag hjúkrunarfræðinga, Öldrunarfræðafélag Íslands, Öldrunarráð Íslands, Félag íslenskra öldrunarlækna, Geðhjálp og Landssamband eldri borgara tilnefni einn fulltrúa hver. Nefndin skili niðurstöðum fyrir 1. desember 2005.

Þessi þingsályktunartillaga var lögð fram á síðasta þingi en varð ekki útrædd þá. Eldri borgurum hefur fjölgað mikið hérlendis og þótt umfjöllun um málefni þeirra sé mun meiri en áður er á margan hátt ekki komið nægilega til móts við hagsmuni þeirra. Sum svið sem skipta aldraða mjög miklu máli liggja í þagnargildi. Einn þessara málaflokka er þunglyndi meðal eldri borgara sem þessi þingsályktunartillaga fjallar um.

Samkvæmt skýrslum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar er þunglyndi einn erfiðasti sjúkdómur mannkyns og getur verið lífshættulegur. Þunglyndi er hins vegar oft læknanlegt og ætíð er hægt að ráða einhverja bót á því. Sjúkdómurinn er einnig dýr m.a. vegna minni vinnugetu.

Á Íslandi er talið að um 12.000–15.000 manns þjáist af þunglyndi. Þetta er gríðarlegur fjöldi og þunglyndi eldri borgara er sérstakt vandamál. Vandamálið felst m.a. í því að það er að einhverju leyti falið og ógreint. Þunglyndi eldri borgara getur sömuleiðis haft margs konar sérstöðu sem ber að taka tillit til. Það getur í sumum tilfellum verið frábrugðið þunglyndi annarra aldurshópa þar sem missir maka eftir langt hjónaband, einmanaleiki og lífsleiði geta verið veigameiri orsök en hjá öðrum hópum sem og fjárhagsáhyggjur og kvíði vegna framtíðarinnar. Sjúklingarnir geta einnig átt til að léttast án þess að vitað sé af hverju, auk þess sem gjarnan fylgja líkamleg einkenni sem viðkomandi kvartar yfir í stað þess að átta sig á því eða viðurkenna að um þunglyndi sé að ræða.

Engin stofnun innan heilbrigðisgeirans hér á landi fæst á skipulagðan hátt við þunglyndi eldri borgara. Á geðlæknaþingi sem haldið var í Reykjavík sumarið 2003 kom fram hjá Ásgeiri Bragasyni, öldrunargeðlækni í Ósló og formanni öldrunardeildar norska geðlæknafélagsins, að síðustu 10 ár hafi uppbygging á öldrunargeðþjónustu í Noregi verið hröð og einungis tvö af 19 fylkjum Noregs bjóði ekki upp á slík úrræði nú. Að sögn Ásgeirs ætti að starfrækja tvær slíkar stofnanir hér á landi miðað við mannfjölda.

Gott starf hefur þó verið unnið hér á landi í tengslum við þunglyndi. Hjá landlæknisembættinu er sérstakt fræðslu- og forvarnaverkefni í gangi sem kallast Þjóð gegn þunglyndi og er það samvinnuverkefni fjölmargra aðila. Hjá Geðrækt, sem er samstarfsverkefni landlæknisembættisins, geðsviðs Landspítala – háskólasjúkrahúss, Heilsugæslunnar í Reykjavík og Geðhjálpar, hefur þunglyndi eldri borgara verið efni sérstaks þemamánaðar undir yfirskriftinni Geðheilsa eldri landsmanna – lyf eru ekki lausn við leiða.

Þunglyndi eldri borgara hefur þó ekki verið rannsakað sérstaklega hér á landi og á nefndin að bæta úr því, auk þess að meta umfang þess og möguleg úrræði og forvarnir. Þó má minnast þess að Hallgrímur Magnússon læknir hefur verið að skoða málið. Með greiningu á þunglyndi eldri borgara má auka þekkingu á þunglyndi meðal þessa fólks í þeirri von að draga megi úr tíðni þess, gera meðferð skilvirkari og fækka sjálfsvígum.

Mikilvægt er að skoða tíðni sjálfsvíga og sjálfsvígstilrauna meðal eldri borgara en að sjálfsögðu ber að nálgast slíkt af mikilli varúð og nærgætni. Sjálfsvíg meðal eldri borgara hafa lengi verið feimnismál hér á landi eins og annars staðar. Hins vegar er nauðsynlegt að meta umfangið til að geta brugðist við og spornað gegn þessari vá. Lykilatriðið er að greina vandamálið svo að hægt sé að bregðast rétt við því.

Mögulegar úrlausnir vegna þunglyndis eldri borgara þurfa að vera sértækar og sérsniðnar að aldurshópnum. Nefndinni ber að skoða möguleika til að bregðast við þunglyndi eldri borgara, svo sem hvaða úrræði séu nú þegar til og hvað þurfi að bæta í slíkum málum. Forvarnir gegn þunglyndi eru einnig afar mikilvægar. Það má leiða líkur að því að sérstök úrræði þurfi í forvörnum þegar kemur að öldruðum. Þunglyndi, kvíði og einmanaleiki eiga ekki vera eðlilegir fylgifiskar efri áranna.

Í ljósi mikillar notkunar á geð- og þunglyndislyfjum hér á landi er nauðsynlegt að bregðast við þunglyndi með öllum tiltækum leiðum. Tilhneigingin hefur verið að leysa þennan vanda meðal eldri borgara með lyfjagjöf í stað annarrar meðferðar. Það er hins vegar nauðsynlegt að huga einnig að annars konar meðferð samhliða lyfjameðferð eða í staðinn fyrir hana, t.d. að auka félagslega ráðgjöf og auðvelda vitjanir til öldrunarlækna á heilsugæslustöðvum. Sömuleiðis getur aukin hreyfing verið skynsamleg leið til að sporna gegn þunglyndi og því mikilvægt að eldri borgarar hafi aðstöðu til slíkrar hreyfingar.

Eldri borgurum fjölgar sífellt. Til ársins 2010 mun landsmönnum 65 ára og eldri fjölga um 11% og landsmönnum 80 ára og eldri um tæp 30%. Hætt er við að þunglyndi meðal eldri borgara verði að meiri háttar heilbrigðisvandamáli ef ekki er brugðist hratt og rétt við. Skipun nefndar sem rannsaki þessi mál, eins og þingsályktunartillagan gerir ráð fyrir, er því brýnt verkefni og ætti að mati flutningsmanna að hrinda í framkvæmd sem fyrst.

Að lokinni umræðu hér legg ég til að málinu verði vísað til hv. heilbrigðisnefndar og síðan til síðari umr.