131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Sala Símans og einkavæðingarnefnd.

[13:35]

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég varð við tilmælum nokkurra nefndarmanna í efnahags- og viðskiptanefnd um að fjalla um þetta mál og bar fram óskir þeirra um að fá að heyra í einkavæðingarnefnd. Þar sem ég var boðberi þeirra tíðinda hlýt ég að vita best sjálfur hvað sagt var, þ.e. að þeir sáu ekki tilgang í að koma fyrir nefndina þar sem þeir gátu ekki svarað neinu. Þeir gátu ekki svarað neinu þar sem málið er enn þá í vinnslu og ekki fullmótað. Það er að sjálfsögðu eðlilegt að þeir skýri fyrst þeim sem skipuðu þá frá niðurstöðum starfs síns og síðan taki ráðherrarnir pólitíska ákvörðun um hvort svokallað grunnnet verði selt með Símanum eða ekki. Þá fyrst geta menn spurt ráðherra og fengið upplýsingar um stöðu mála.

Það var ekki þannig að þeir neituðu að koma en ef þeir hefðu komið hefðu þeir ekki getað sagt frá neinu á fundi nefndarinnar. Það er enginn tilgangur í því, að því er mér sýnist, að þeir mæti á fund undir slíkum kringumstæðum.

Við fengum hins vegar mjög góðar upplýsingar frá forstjóra Póst- og fjarskiptastofnunar, afskaplega góðar og upplýsandi, t.d. að það er bannað að veita einkaleyfi á fjarskiptamarkaði samkvæmt EES-samningnum. Þar af leiðandi væri bannað að veita Grunnneti hf., eða hvað það heitir, einkaleyfi á grunnneti og daginn eftir að það yrði stofnað mundu spretta upp önnur grunnnet við hliðina á því, sérstaklega í þéttbýlinu. Það er því ekki um það að ræða að stofna eitt grunnnet eins og sumir sjá fyrir sér.