131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Sala Símans og einkavæðingarnefnd.

[13:37]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég á sæti í efnahags- og viðskiptanefnd og það verður að segjast eins og er að okkur brá við þegar við fengum tíðindin, eins og hv. þm. Pétur Blöndal tók hér fram áðan, þess efnis að fulltrúar einkavæðingarnefndar sæju ekki tilgang í því að koma og hitta nefndina. Þeir sáu með öðrum orðum ekki tilgang í að koma og hitta lýðræðislega kjörna fulltrúa almennings á Alþingi til að upplýsa um stöðu mála í máli er lýtur að stærstu sölu sem ríkið hefur staðið að frá upphafi.

Okkur voru einnig borin þau tíðindi, ekki bara þau að þeir neituðu að mæta heldur vorum við upplýstir um það á þessum fundi í morgun, að hefðum við frekari áhuga á málinu gætum við skrifað þeim bréf og þannig fengið upplýsingar frá nefndinni, þá væntanlega þær upplýsingar sem þeir vilja láta okkur í té.

Það langt er síðan heimiluð var sala á hlutafé í Landssímanum að menn eru sennilega búnir að gleyma því að á þeim tíma var um það rætt að fyrst yrði seldur 49% hlutur í félaginu og seinna 51% hlutur í félaginu. Maður hefði talið mikilvægt á þessu stigi, þar sem um er að ræða tæplega fjögur ár síðan þessi heimild var veitt, að þingið yrði upplýst um stöðu mála og gert grein fyrir eins miklu og kostur væri en fengi ekki þau skilaboð að tilgangslaust sé að koma til fundar við efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis og hafi hún ekki áhuga á málinu geti hún ritað einkavæðingarnefnd bréf. Þetta er sú framkoma sem hinu háa Alþingi er sýnd nú árið 2005.