131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Sala Símans og einkavæðingarnefnd.

[13:44]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason sagði að ríkisstjórnin væri dapurleg. (JBjarn: … og þjóðin er bara hreinskilin.) Meira? Ég veit ekki hvaða orð ætti þá að hafa um stjórnarandstöðuna og læt þingmönnum eftir að finna réttu orðin um hana. (Gripið fram í: Meira.) En það er alveg ljóst að stjórnarandstaðan notar hvert tækifæri til að gera úlfalda úr mýflugu til að reyna að gera málið, (JBjarn: Landssíminn er ekki mýfluga.) sölu Landssímans, tortryggilegt. Ég legg til að hv. þingmaður beini skemmtiatriðum sínum eitthvað annað og geri það við önnur tækifæri en í alvarlegri umræðu. Reynt er að gera allt tortryggilegt í málinu og það eru búin til gervitilefni, eins og t.d. það að nefnd sem er á vegum ríkisstjórnarinnar og er að vinna fyrir ráðherrana hafi ekki séð ástæðu til að mæta fyrir þingnefnd. Það vill nú þannig til að þingmenn hafa ráðherrana til að tala við um þessi mál og hefur ekkert skort upp á að menn væru krafðir sagna um þetta mál eða önnur að undanförnu í þingsölunum.

Starfsnefnd ríkisstjórnarinnar, einkavæðingarnefndin, fær ekki starfsfrið til að klára mál sitt áður en menn byrja að heimta að hún mæti í þingnefnd, áður en hún gerir tillögur sínar til ráðherranefndar um einkavæðingu.

Verið er að snúa öllu við eins og menn sjá og þetta er bara enn eitt gervitilefnið til að geta rokið upp í þingsalnum og til að geta slegið fram fullyrðingum um að það sé vitlaust og heimskulegt að selja Símann. Ég segi fyrir mig: Það er sjálfsagt mál að selja Símann, leysa úr læðingi þá milljarðatugi sem þjóðin á í Símanum og nota þá í þörf málefni í hennar þágu, peninga sem hafa verið bundnir þar árum og áratugum saman (Forseti hringir.) og taka þá til nýrra nota í þágu þjóðarinnar sem á þetta fé.