131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Sala Símans og einkavæðingarnefnd.

[13:48]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég bað um orðið á nýjan leik eftir að hafa hlýtt á hæstv. fjármálaráðherra sem fór mikinn og sagði að þó þingmenn væru ósáttir við að opinberar nefndir neituðu að koma til fundar við þingnefndir og við tækjum það upp hér og vektum athygli á því að það gengi illa fyrir Alþingi að veita ríkisstjórninni það aðhald sem nauðsynlegt er vildi ég nefna það til upplýsingar fyrir hæstv. fjármálaráðherra að í morgun ræddum við þingmál sem laut að Landssímanum og vorum að kalla eftir upplýsingum. Við ræddum um tvö mál, annars vegar þingmál hv. þm. Jóhanns Ársælssonar og hins vegar þingmál Vinstri grænna. Það voru því þingmál á dagskrá og við vorum að kalla eftir upplýsingum í tengslum við meðferð þeirra. Það er ekki vani að ráðherrar komi fyrir þingnefndir þó að það sé kannski full ástæða til að breyta því. Ég vildi bara upplýsa þetta.

Ég vil hæla hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir að hafa tekið þetta á dagskrá og fyrir að reyna að kalla til þá sem óskað var eftir og enginn að finna að formennsku hans í nefndinni, nema síður væri. Ég vil þó leiðrétta hv. þingmann því hann gerði þingnefndinni grein fyrir því í morgun að skilaboð hefðu komið frá einkavæðingarnefnd um að ef við vildum fá upplýsingar um málið gætum við ritað bréf og kallað eftir því, en hv. þingmaður sagði áðan að um tveggja manna tal hefði verið að ræða. Ég vildi aðeins leiðrétta þetta.