131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Mælendaskrá í athugasemdum um störf þingsins.

[14:01]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Það er kvartað undan því í þessari umræðu að sá ráðherra sem fyrirspurnum er beint til fái að tala mikið. Þingmönnum virðist þykja betra að ráðherrarnir sem verið er að spyrja út úr komist sem minnst að.

Nú kemur hv. þm. Kristján Möller með einhverjar nýjar spurningar, nýjar fullyrðingar, en ég ætla ekki að misnota aðstöðu mína hér og þingsköpin með því að fara út í þær. Ég tel að hv. þingmaður verði að fara út í þær síðar og þess vegna ætla ég ekki að svara þeim.

Mér finnst mjög merkilegt að þingmenn vilji að ráðherrar standi fyrir svörum, sem mér finnst sjálfsagt, en kvarta svo stöðugt undan því að viðkomandi ráðherrar tali of lengi og of oft. Svo kvarta þeir undan því að engu sé svarað. Þetta er alveg kostulegt, og dæmigert fyrir þann málflutning sem stjórnarandstaðan stendur fyrir á Alþingi.