131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[14:40]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nú erfitt að rökræða við hv. þingmann þegar hann talar með þeim hætti sem hann gerir hér. Það fyrirkomulag sem hér er lagt til með þessu frumvarpi býður upp á einfaldari stjórnsýslu á sviði samkeppnismála (Gripið fram í.) því núverandi fyrirkomulag þykir óþarflega flókið og tímafrekt.

Af því að hv. þingmaður kallaði hér fram í og sagði að verið væri að bæta við nefnd, þá er það svo að í dag er starfandi samkeppnisráð sem vill svo til að viðskiptaráðherra skipar, viðskiptaráðherra skipar samkeppnisráð í dag. Hér er hins vegar verið að tala um stjórn í staðinn fyrir ráðið og stjórnin ræður forstjórann. Það er alveg með endemum ef hv. þingmaður getur ekki tekið undir að það auki sjálfstæði stofnunarinnar þegar forstjórinn heyrir ekki beint undir ráðherra heldur undir stjórnina. (SigurjÞ: Og þarf að bera allar meiri háttar ákvarðanir undir …)

Það er kannski ekki gott að vera hér með tveggja manna tal, hæstv. forseti, ég held að hv. þingmaður fái tækifæri til að koma upp aftur ef hann sér ástæðu til. En það kemur mér ekkert á óvart að þessi málflutningur skuli vera hafður uppi hér vegna þess að hv. þingmaður hefur eflaust leitað lengi að því sem hann gæti helst fundið að þessu máli og þarna ber hann niður og er ekkert frekar um það segja. Ég hef sannfæringu fyrir því að það sem lagt er til í þessu frumvarpi sé til mikilla bóta.