131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[15:07]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það verður vitaskuld mjög athyglisvert að sjá hvernig þingið mun bregðast við þeim hugmyndum sem hér liggja fyrir um að fella niður þennan svokallaða c-lið 17. gr. vegna þess að þetta ákvæði varð til í þinginu. Þetta ákvæði varð til í efnahags- og viðskiptanefnd. Þetta ákvæði varð til vegna þess að menn vildu bregðast við hringamyndun. Það er ástæðan. Það eru rökin fyrir því að þetta ákvæði varð til, kemur hér inn. Þetta ákvæði er búið að vera í lögum frá því á árinu 1993. Samkeppnislögum höfum við breytt a.m.k. í tvígang og aldrei hefur þetta þvælst fyrir.

Virðulegi forseti. Það vantar því öll rök til þess að hæstv. ráðherra geti talist trúverðug í því að tala nú um það í ljósi þeirra markmiða sem lagt var upp með við setningu nýrra samkeppnislaga að taka út núna einasta ákvæðið sem til er í íslenskri löggjöf til þess að bregðast við hringamyndun.